140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ríkt mikil sátt um verklagið sjálft og umgjörðina sem er á samgönguáætlun og alla þá vinnu. Varðandi það hvort aðrir sem bíða eftir göngum sætti sig við þetta, hvort sem það eru Vestfirðingar eða Austfirðingar, þá liggur alveg ljóst fyrir að grundvöllurinn fyrir því að taka þessa framkvæmd fram fyrir er sá að hún standi 100% undir sér. Ef svo er ekki er verið að taka framkvæmd fram fyrir sem stendur ekki undir sér og á þá heima í samgönguáætlun og á bara að raðast í röð með öðrum göngum. Ég hygg að Vestfirðingar sem bíða eftir Dýrafjarðargöngum, þar sem fólksfækkun hefur orðið allan góðæristímann og líka eftir hrunið, muni ekki sætta sig við það ef við förum að taka þessi göng fram fyrir og þau standa ekki undir sér. Það sem öll vinnan gekk út á í umhverfis- og samgöngunefnd var hvort þessi göng stæðu undir sér eða ekki. Niðurstaða mín er samhljóða niðurstöðu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að þau standi ekki undir sér, ríkið þurfi að leggja inn í þau og þess vegna eiga þau að fara í þá vinnu. Ég held að ég sé fyllilega sammála flestum þeim Vestfirðingum sem ég hef hitt og hafa tjáð sig um þetta mál.

Hitt sem má svo gagnrýna mjög harðlega við stefnu sitjandi ríkisstjórnar er það litla fjármagn sem rennur til samgöngumála eins og ég rakti í ræðu minni, 15,7 milljörðum er varið til vegagerðar á þessu ári þegar tekjur af ökutækjum nema 54 milljörðum. Þetta kemur langverst niður á landsbyggðinni því að þar geta menn ekki stuðst við almenningssamgöngur og þar þurfa menn að keyra mjög mikið. Þessu þurfum við að breyta. Ég treysti á stuðning hv. þingmanns í því, líkt og hv. þingmaður hefur beitt sér af alefli fyrir málefnum hinna dreifðu byggða. Vil ég til að mynda nefna Árneshrepp í því samhengi. Ég bind vonir við (Forseti hringir.) stuðning í því máli áfram og hinna dreifðu byggða almennt.