140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:18]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það kom fram í andsvari við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að hann teldi hina eðlilegu forgangsröðun jarðganga vera, ef litið væri algerlega fram hjá þætti vegtolla, Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og svo Vaðlaheiðargöng, af þessum þremur kostum. Auðvitað gætu ýmis önnur göng komið fram fyrir Vaðlaheiðargöng samkvæmt þessari forsendu.

Þá langar mig til að spyrja, af því að sátt er um einmitt þetta verklag sem heitir samgönguáætlun og ekkert hefur verið rætt hvaða áhrif hugsanlegir vegtollar og veggjöld eigi að hafa innan samgönguáætlunar — það er bara órætt mál sem þingið á í reynd eftir að taka afstöðu til: Þykir hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni ekki einboðið að ef menn eiga að upplifa einhverja sátt og sanngirni í samfélaginu hljóti bæði (Forseti hringir.) Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng að koma á undan Vaðlaheiðargöngum og svo séu þau tekin þegar röðin er komin að þeim?