140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Á dagskrá fyrir daginn í dag, 25. maí, eru 18 mál. Við erum búin að vera að síðan kl. 10.30 í morgun og við erum búin með einn lið að fullu og þessi liður, 2. liður, heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, er greinilega í miklum ágreiningi og það virðist vera bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu. Ég spyr mig: Er ástæða til að halda þessu lengur áfram, sérstaklega þar sem hér eru á dagskrá lokafjárlög fyrir 2010 sem menn eru að keppast við að ná fyrr fram og eru búin að vera í umræðu þingsins síðan í október. Við eigum eftir að ræða sjúkratryggingar og lyfjalög og aðgerðir gegn peningaþvætti, allt mjög mikilvæg mál sem bíða. Svo gætum við náttúrlega rætt áfram um IPA-styrkina eða tekið þá af dagskrá líka. Ég mundi því leggja til, herra forseti, að þessi tvö mál, 2. og 3. mál, yrðu tekin af dagskrá.