140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að fagna því að stjórnarliðar kæmu undir þessum lið, fundarstjórn forseta, og hvettu menn til að tala almennt í málum. Ég tek heils hugar undir það, enda höfum við í stjórnarandstöðunni nýtt okkur þann lýðræðislega rétt sem við höfum til að tjá okkur um þetta mál. Ég ætla ekki að letja hv. þingmenn til að ræða það. Ég er hins vegar ósammála þeim að þetta sé ekki mikilvægt mál. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt mál, gríðarlega mikilvægt, og fagna því að það sé á dagskrá.

Síðan vil ég gera athugasemdir við þau orð sem féllu hjá hv. þm. Pétri Blöndal að vegna þess að málið sé umdeilt eigi það ekki að vera á dagskrá. Ég veit ekki hvaða mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram er óumdeilt, svo ég segi það hreint út. Eigum við þá að taka öll mál og henda þeim aftur inn í nefnd bara af því að þau eru umdeilanleg? Ég hafna þeim málflutningi. Ég held að við ættum miklu frekar að beita okkur fyrir því (Forseti hringir.) að fá hér mál til umræðu og greiða um þau atkvæði, og vil benda hæstv. forseta á það, áður en hann lemur í bjölluna, að það eru (Forseti hringir.) 191 mál læst inni í þingnefndum hjá meiri hlutanum.