140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:27]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það er ekki ástæða til að taka mál af dagskrá af því að þau eru umdeild, það er ekki þannig. Það sem hér hefur gerst, og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir benti á, er að í salnum hefur í raun og veru skapast sá skilningur, sem er nýr og enginn hefur mótmælt honum, að hér sé alls ekki um einkaframkvæmd að ræða eða einhverja tegund af einkaframkvæmd, heldur einhverja skrýtna útgáfu af ríkisframkvæmd. Ef þetta er ríkisframkvæmd, eins og bent hefur verið á í salnum, er eðlilegt að um hana sé fjallað í umhverfis- og samgöngunefnd en um samgönguframkvæmdir er alla jafnan fjallað í þeirri nefnd. Þess vegna er eðlilegt að hætta þessari umræðu hér og leggja síðan á ráðin um það með hvaða hætti þetta á að koma í hina háu umhverfis- og samgöngunefnd og síðan ráða menn ráðum sínum þar hvernig þeir leggja til að þingið afgreiði þetta mál að lokum í þessum búningi eða öðrum.