140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það væri eðlilegt að ræða þessi mál hér samhliða. En eftir því sem ég best veit er það á höndum formanns nefndarinnar að afgreiða málið úr nefnd. Þannig hefur það virkað á hinu háa Alþingi frá því að ég settist á þing og ég er alveg viss um að það hefur verið þannig áður. Ég er hins vegar ósammála þeim sem halda því fram, og vil þá koma þeim mótmælum á framfæri ef þau hafa ekki komið fram fyrr í dag, að málið heyri undir og umhverfis- og samgöngunefnd. Ég held að ríkisábyrgðir almennt heyri undir fjárlaganefnd og ég hefði haldið að það væri sameiginlegur skilningur á því í fjárlaganefnd. Þegar ákveðið var að taka málið inn í umhverfis- og samgöngunefnd var það einhliða ákvörðun nefndarinnar, það var ekki Alþingi sem tók þá ákvörðun eftir því sem ég best veit.