140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:51]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir einkar skýra yfirferð á málinu og skýra sýn. Satt best að segja eru margir þræðir í þessu máli en öðrum þræði snýst það um að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, tryggja að farið sé eftir réttum leiðum, í réttum farvegi með réttum hætti.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann varðar í fyrsta lagi hið varasama fordæmi sem gefið er með því að hunsa athugasemdir og ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs og sníða af eftir hentisemi tiltekna þætti laga um Ríkisábyrgðasjóð. En burt séð frá því hvernig málum er háttað í framhaldinu (Forseti hringir.) innan fjárlaganefndar, þykir hv. þingmanni ekki full ástæða til að þetta verkefni sé rætt í samhengi við samgönguáætlun í heild sinni (Forseti hringir.) og umhverfis- og samgöngunefnd komi að því í umfjöllun sinni um hver stefnan er og áætlanir varðandi samgöngumál í landinu?