140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef nálgast þetta mál sem samgöngunefndarmaður. Hingað til höfum við verið með tvær leiðir í miklum samgönguframkvæmdum á landinu, annars vegar hina venjulegu leið samgönguáætlunar og hins vegar hina svokölluðu einkaframkvæmd, sem Hvalfjarðargöngin eru skýrasta dæmið um. Mínar áhyggjur hafa meðal annars verið þær að hér er verið að búa til leið sem ekki er skýrlega mörkuð þeim ramma sem á við báðar hinar. Ég er þess vegna sammála hv. þingmanni í því að eini möguleikinn fyrir okkur til að styðja þetta verkefni, sem ég tel á margan hátt þarft, er að skilgreina það mjög vandlega, skilgreina það sem almennt verkefni þannig að við séum alveg klár á því hvaða fordæmi eru fyrir hendi og hvaða fordæmi það getur haft.

Spurning mín til þingmannsins er hvernig sú skilgreining er, en einkum (Forseti hringir.) vil ég spyrja hvort við verðum ekki að tryggja að það sé ekki þannig að ríku svæðin geti keypt sér samgöngur með þessum hætti en þau fátæku sitji eftir.