140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þannig getum við ekki búið um hlutina. Í þessu máli er náttúrlega augljóst að vilji er til að greiða veggjöld vegna þessarar framkvæmdar og ég tel þess vegna rétt að nýta það og ég tel, enn og aftur, að það gefi henni vigt.

Hvað varðar fordæmisþátt málsins veit ég að hv. þingmaður ætlast ekki til þess að ég fari út í nákvæma útlistun á því. En það er þó eitt sem blasir við. Það fordæmi sem felst í því að kalla augljósa fjárfestingu lán og ætla með því að fara að skauta fram hjá t.d. niðurstöðu Ríkisábyrgðasjóðs og fleiri aðila sem hafa vélað og talað um þetta, er í sjálfu sér nóg til að menn segi: Við getum ekki gert þetta svona. Enn og aftur beini ég því, virðulegi forseti, til þeirra hv. þingmanna sem af góðum hug vilja gjarnan að þetta mál fari áfram, að leita sér stuðnings hjá öðrum (Forseti hringir.) og koma sér út úr þessari stöðu sem þeir hafa komið málinu í. (Gripið fram í.)