140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir því að Ríkisendurskoðun hafi lagt fram sérstakt álit á fundinum en fulltrúar hennar komu á fund nefndarinnar, það er rétt hjá hv. þingmanni. Þar kom sú skoðun Ríkisendurskoðunar fram að ekki væri um einkaframkvæmd að ræða heldur ríkisframkvæmd. Það er alveg skýrt hjá þeim sem sátu þann fund. Það man hv. þingmaður jafn vel og ég og það er mergur málsins. Ríkisendurskoðun, Seðlabanki og allir þeir sem skoða þetta komast að sömu niðurstöðu: Um er að ræða opinbera framkvæmd, ríkisframkvæmd.

Virðulegi forseti. Það á að fara með þetta mál sem slíkt. Það á að bóka það sem slíkt og öll vinna í þinginu á að byggjast á því. Þess vegna á þetta að fara í gegnum samgöngunefnd þannig að þetta sé borið saman við aðrar framkvæmdir en um leið sé tekið tillit til þess að hægt er að taka veggjöld fyrir þessu og þess vegna á að láta þá framkvæmd njóta þess.