140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi staldra við í máli hv. þingmanns.

Annars vegar vil ég nota tækifærið í þessu andsvari til að biðja hann að gera nánar grein fyrir því hvaða sjónarmið og á hvaða forsendum Ríkisendurskoðun kom fyrir fjárlaganefnd vegna þessa máls. Það er þekkt í atburðarásinni að fyrir áramót óskaði umhverfis- og samgöngunefnd eftir því að Ríkisendurskoðun léti í ljós álit á málinu en Ríkisendurskoðun treysti sér ekki til þess af tveimur forsendum, í fyrsta lagi vegna þess að verkbeiðnin væri ekki á sviði Ríkisendurskoðunar og í öðru lagi vegna þess að ríkisendurskoðandi væri vanhæfur til að fjalla um málið vegna fjölskyldutengsla sem óþarfi er að fara nánar út í. Þetta tvennt kom fram í svörum Ríkisendurskoðunar við erindi frá umhverfis- og samgöngunefnd í nóvember og með fullri virðingu fyrir Ríkisendurskoðun vakti það óneitanlega athygli mína að Ríkisendurskoðun var nefnd í þessu samhengi og að hún hefði treyst sér til að tjá sig um málið við fjárlaganefnd.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna varðar eitt af grundvallaratriðunum í þessu sambandi og lýtur að umferðarspám. Þar erum við í fullkominni óvissu. Eingöngu er um að ræða spár til eða frá, svartsýnar eða bjartsýnar eftir atvikum.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef við berum þessi göng t.d. saman við Hvalfjarðargöng og ef við berum saman þá styttingu leiðar sem annars vegar næst með þessum göngum og hins vegar með Hvalfjarðargöngunum, finnst honum þessi tvenn göng sambærileg hvað þetta atriði varðar?