140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir spurningarnar. Fyrsta spurningin snerist um það á hvaða forsendum Ríkisendurskoðun hefði komið fyrir nefndina. Það er erfitt fyrir mig að svara þeirri spurningu og ég vona að því sé sýndur skilningur. Ég taldi að Ríkisendurskoðun ætti að koma fyrir umhverfis- og samgöngunefnd á sínum tíma og ég gagnrýndi það í fjölmiðlum að hv. þm. Kristján L. Möller hefði sett sjálfan sig í stjórn Vaðlaheiðarganga. Ég held að það hafi verið mistök. Ég tel að þingmaðurinn viðurkenni sjálfur þau mistök enda hefur hann látið þar af störfum.

Ef Ríkisendurskoðun hefði komið fyrir umhverfis- og samgöngunefnd tel ég að hún hefði gefið sama álit og hún gaf fjárlaganefnd, þ.e. jákvætt hvað ríkissjóð varðar.

Varðandi umferðarspár, önnur spurning þingmannsins var einmitt um þær, er afar erfitt um að dæma. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Vegagerðin sé best til þess fallin að gera umferðarspár og spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það. Ég vísaði í það í máli mínu að hún hefði verið varfærin í nálgun sinni og ef menn skoða söguna hvað það varðar hefur hún frekar reynst varfærnari en hitt. Ég held að við ættum að horfa til þess, sérstaklega nýlegra dæma eins og Héðinsfjarðarganga.

Ég nefndi Hvalfjarðargöngin í máli mínu vegna þess að fullyrt hefur verið að þau hafi verið 100% í einkaframkvæmd. Ég sé að tími minn er á þrotum, en ég benti á að ríkið hefði komið að þeirri framkvæmd.