140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann var svona að giska á síðustu spurninguna vegna þess að ég var búinn á tíma og talaði hratt. Ég vil því ítreka þá spurningu til hv. þingmanns. Hún var sú hvort hv. þingmaður gæti ekki tekið undir að skynsamlegra væri, áður en farið yrði af stað í verkið, að nota ekki svokallað framkvæmdalán sem er til sex ára og fjármagna í staðinn verkið til enda til að nýta þá stöðu sem nú er á markaði þar sem vextir eru lágir og það er að sjálfsögðu í skjóli gjaldeyrishafta. Ég hef nefnilega verulegar áhyggjur af vaxtastiginu og þó svo að allar forsendur aðrar en vaxtastigið gangi eftir og það fari upp í 5,3% þá verður 100% greiðslufall hjá hlutafélaginu. Þess vegna spyr ég hvort ekki sé skynsamlegra að við vitum fyrir fram hver vaxtakostnaðurinn er, sem er auðvitað mesti óvissuþátturinn í þessu máli vegna þess að það er mjög erfitt að geta sér til um hvert vaxtastigið verður eftir sex ár og hvernig umhverfið verður, til að taka þessa áhættu úr sambandi.