140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með hv. þingmanni í umræðunni og tekið eftir því að hún skautar algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að notendur komi til með að greiða fyrir akstur í gegnum göngin. Þetta er algjör grunnforsenda þess að hægt sé að ráðast í göngin á þeim forsendum sem nú liggja fyrir.

Ég hef skilið Vegagerðina þannig að hún telji ekki ráðlegt að ráðast í tvenn göng samtímis innan samgönguáætlunar. Ég held hins vegar að þegar við erum með verkefni eins og Vaðlaheiðargöng sé réttlætanlegt að taka þau út fyrir sviga vegna þess að það er miklu ódýrara fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið og skattgreiðendur í landinu þegar notendur eru reiðubúnir að borga fyrir þetta.

Ég held að ég hafi svarað — ég sé að ég hef hér 9 mínútur í andsvar, virðulegi forseti, það eru einhver mistök.

Hvort ég telji að samgöngunefnd hafi haft heimild til að fjalla um málið. Ég hef talið að þetta mál hafi frá upphafi, eftir að við fórum að fjalla um ríkisábyrgðina, heyrt undir fjárlaganefnd eins og allar þær ríkisábyrgðir sem koma til umfjöllunar á Alþingi. Umhverfis- og samgöngunefnd tók að eigin frumkvæði ákvörðun um að fjalla um málið. Gott og vel. En ef við ætlum að leika þann leik hér á Alþingi að tvær, jafnvel þrjár nefndir séu með mál í vinnslu verður þetta að algerri vitleysu. Ég held að það sé kannski þess vegna sem þetta mál er komið í þennan farveg að menn ákváðu að kippa því inn í umhverfis- og samgöngunefnd þegar það átti heima í fjárlaganefnd og hvergi annars staðar.