140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum ekki sammála, ég held að það liggi fyrir. Ég vil samt biðja hana að horfa til þess að þeir sem ætla að keyra í gegnum göngin koma til með að borga fyrir það. Þetta er algjört grundvallaratriði.

Ég hef heyrt ræður hjá hv. þingmanni þar sem hún hefur haldið því fram fullum fetum að það sé verið að taka Vaðlaheiðargöng fram fyrir Norðfjarðargöng eða Dýrafjarðargöng. Svo er ekki og það hafa samherjar hennar í ríkisstjórninni, núverandi fjármálaráðherra og fleiri, sagt ítrekað. Það eru ekki bara þingmenn í því kjördæmi sem berjast fyrir þessu. Samt sem áður stillir þingmaðurinn því upp þannig að verið sé að taka Vaðlaheiðargöng fram fyrir Norðfjarðar- eða Dýrafjarðargöng. Ég tel svo ekki vera og vísa í það sem ég hef áður sagt.

En ég vil segja eitt: Norðfjarðargöng áttu að verða að veruleika 2009. Heimamenn féllust á að þeim framkvæmdum yrði frestað til 2011. Ég tel einfaldlega að það sé komið að þeim. (Forseti hringir.) Innan eins kjördæmis — það vill svo til að Norðurlandi er (Forseti hringir.) skipt í tvennt, virðulegi forseti, og ég tel það í góðu lagi að þegar fara fram framkvæmdir við Norðfjarðargöng (Forseti hringir.) fyrir austan sé hægt að fara í þetta sérstaka verkefni á Norðurlandi.

(Forseti (ÁI): Forseti vill hvetja hv. þingmann til þess að virða ræðutíma.)