140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:05]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans þar sem hann tók á margvíslegum þáttum þessa máls. Fjallað hefur verið um það í dag, meðal annars af samflokksmönnum hv. þingmanns og fleirum, að hér sé gefið varasamt fordæmi með því að hunsa alvarlegar ábendingar og athugasemdir Ríkisábyrgðasjóðs í þessu máli og það sé varasamt fordæmi að sniðganga eða taka úr sambandi tiltekna þætti laga um Ríkisábyrgðasjóð, það skapi augljóslega varasamt fordæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um annars konar varasamt fordæmi. Þegar við blasir að forsendan sem gefin var fyrir því að þetta verkefni mætti fara fram fyrir önnur er brostin eða er engan veginn hafin yfir eðlilegan vafa, skapar það þá ekki varasamt fordæmi ef slík ríkisframkvæmd, opinber framkvæmd á sviði samgöngumála, er þrátt fyrir það afgreidd utan við samgönguáætlun, utan við allar eðlilegar viðmiðanir, utan við allar eðlilegar forsendur sem þar eru lagðar til eins og varðandi forgangsröðun jarðganga? Er það ekki varasamt fordæmi fyrir framtíðina ef við ætlum okkur að reyna að ná sátt (Forseti hringir.) í þessum málaflokki?