140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á mjög mikilvægan þátt sem er sú aðferðafræði sem notuð er við mótun samgönguáætlunar. Samgönguáætlun, hvort sem er til lengri tíma eða skemmri tíma, er áætlun en ekki endanleg ákvörðun en engu að síður hafa bæði núverandi hæstv. innanríkisráðherra og forverar hans um langt árabil, hygg ég, reynt að byggja samgönguáætlanir og þar áður vegáætlanir á nokkuð víðtækri sátt. Þær hafa verið undirbúnar þannig að menn hafa leitað eftir áliti sérfræðinga, sveitarfélaga og hagsmunaaðila, landshlutasamtaka og fleiri aðila sem að þessum málum koma, og við gerð vegáætlana og samgönguáætlana verið gerð tilraun til að ná einhverri málamiðlun og skipa málum í einhverja tiltekna framkvæmdaröð vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að við erum með fjöldann allan af æskilegum, jákvæðum verkefnum sem eru þjóðhagslega hagkvæm og geta haft í för með sér aukið umferðaröryggi o.s.frv. Að búa til áætlanir, samgönguáætlun eða vegáætlun til skemmri tíma og til lengri tíma er auðvitað ákveðin leið til að byggja nokkuð breiða sátt um bæði þær forsendur sem eiga að liggja til grundvallar forgangsröðuninni og síðan um forgangsröðunina sjálfa.

Auðvitað er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að með því að velja svona hjáleið er ákveðin hætta á því að þær forsendur sem samgönguáætlunin byggir á verði látnar víkja. Með þessu er ég ekki að segja að ekki eigi að skoða leiðir eins og (Forseti hringir.) veggjöld á ákveðnum svæðum eða stöðum en það verður þá bara að taka (Forseti hringir.) tillit til þess í áætlunargerðinni.