140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var einmitt það sem ég var að reyna að koma inn á þegar tími minn rann út í fyrra svari mínu, ég er í grundvallaratriðum ekki ósáttur við að veggjöld séu lögð á í einhverjum mæli undir einhverjum kringumstæðum. Ég er ekki í hópi þeirra sem hafna veggjöldum sem leið til þess að fjármagna samgönguverkefni.

Hins vegar er það alveg hárrétt sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir bendir á að ef við ætlum að skoða framkvæmdir sem eru að hluta til fjármagnaðar með veggjöldum í samanburði við aðrar framkvæmdir þurfum við að vega og meta hvaða vægi veggjöldin eiga að hafa í samanburði við aðra þætti sem skipta máli þegar forgangsröðun verkefna er ákveðin. Við vitum það bæði ég og hv. þingmaður að Vaðlaheiðargöng lenda frekar aftarlega í röðinni á þeim mælikvörðum sem lagðir eru til grundvallar samgönguáætlun, reyndar mjög aftarlega ef út í það er farið miðað við hvaða fjármagn er til ráðstöfunar á næstu árum. Ef við hefðum ótakmarkaða peninga væri náttúrlega æskilegt að flýta þeim eins og öðrum verkefnum eins og menn þekkja. En þegar forsendurnar sem samgönguáætlun er byggð á eru skoðaðar lenda Vaðlaheiðargöng mjög aftarlega í röðinni. Eins og hér hefur verið nefnt oftar en einu sinni var forsendan fyrir því að taka þau út og afgreiða þau sérstaklega með það að markmiði að þau færu bara strax í gang, sú að þarna væri um að ræða viðskiptamódel sem gengi upp og mundi ekki leiða til útgjalda eða óeðlilegrar áhættu fyrir ríkissjóð. Sú forsenda er ekki lengur fyrir hendi.