140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki af hverju vinnulagið er svona. Það gildir einu. Það liggur hins vegar fyrir að ábyrgðin í þessu máli liggur í þinginu og það er ljóst að hv. fjárlaganefnd var með þetta mál. Hv. formaður fjárlaganefndar og meiri hlutinn stýrir því í hvaða farvegi málið er. Við getum svo sem gagnrýnt hæstv. ráðherra í ríkisstjórn og höfum gert það áður Ég kannast alveg við að hafa gert það. En þetta er á ábyrgð þingsins. Málið var að koma úr hv. fjárlaganefnd og það eru þeir einstaklingar, hv. þingmenn í meira hluta nefndarinnar, sem bera ábyrgð á því. Ég gagnrýni þá þegar ég segi að mér finnst ótrúlegt að þegar búið er að sýna fram á að það sé pottur brotinn, eins og hv. þingmenn í minni hlutanum gera í (Forseti hringir.) minnihlutaálitum sínum, sé ekki tekið mark á því. Það er ábyrgðarhluti af hv. þingmönnum í meiri hlutanum að ganga frá þessu eins og þeir gera.