140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka fyrir þetta svar. Þetta leiðir hugann að hinum svokallaða stöðugleikasáttmála sem ríkisstjórnin samdi um við aðila vinnumarkaðarins á sínum hveitibrauðsdögum, eigum við ekki að segja það. Það var nú svikið eins og annað sem þessi ríkisstjórn hefur komið nálægt. Ég man ekki hvort hæstv. innanríkisráðherra var ráðherra þá, ráðherraskipti hafa verið svo tíð að maður hefur ekki lengur yfirsýn yfir það og ég er ekki með þetta í kollinum.

Þá var farið af stað með að gera þessa framkvæmd aðlaðandi fyrir lífeyrissjóðina og ríkisstjórnin reiknaði bara með því að lífeyrissjóðirnir mundu hoppa á þessa framkvæmd. Það sýnir að framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin hér á landi, getur ekki ráðstafað fjármunum lífeyrissjóðanna. Svo virðist vera að málið hafi endanlega komist í uppnám þegar lífeyrissjóðirnir sögðu sig í raun frá verkinu, töldu sig ekki fá nógu mikla ávöxtunarkröfu. Það er alltaf að vindast meira upp á málið og gera það verra að því leyti að það er komið aftur í fang ríkisins (Forseti hringir.) eins og ríkisframkvæmd vegna þess að ríkið þarf að standa við svo háa ríkisábyrgðarskuldbindingu. (Forseti hringir.) Er þá ekki best að málið fái sinn farveg og fari til baka? (Forseti hringir.)