140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að vonast til að ég kæmi inn í þessa umræðu sem afruglari en ekki ruglari, það var ekki meiningin að reyna að rugla umræðuna, heldur fara yfir sögu málsins (Gripið fram í.) og mína aðkomu að þessu máli. Sannast sagna finnst mér það ekkert óskaplega illa statt, alls ekki.

Það sem er að gerast núna er að hér á þingi fara nú fram þverpólitísk skoðanaskipti þar sem farið er í saumana á málinu, óháð þeim stjórnmálaflokki sem fólk kemur frá og óháð því hvort það kemur úr stjórn eða stjórnarandstöðu. Þannig held ég að við ættum að ræða miklu fleiri mál á þingi. Ég hef trú á því að ef við hefðum borið gæfu til að gera það hefðum við iðulega komist að skynsamlegri lausnum en við stundum gerum. Þá er ég ekki að horfa til undangenginna missira, ég er að horfa til langs tíma, til skamms tíma og til langs tíma.

Við erum ekki búin að afgreiða þetta mál. Við erum að skoða það. Við erum að gaumgæfa það. Ég hef trú á því að umræðan í dag hafi að mörgu leyti varpað nýju ljósi á málið. Ýmsar staðreyndir hafa komið fram. Við erum að reyna að setja málið í sögulegt samhengi og í stærra samhengi við fjárfestingarstefnu stjórnvalda og okkar, fjárveitingavaldsins, á komandi árum. Við erum að horfa á það með hliðsjón af samgönguáætlun o.s.frv. Ég leyfi mér að halda því fram að við séum bara stödd á ágætum stað í umræðu um málið.