140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. ráðherra var ágætisviðbót við þau nefndarálit sem hér liggja frammi. Ég leyfi mér að skilja hæstv. ráðherra þannig að full ástæða sé til að gefa sér nægan tíma til að skoða þetta mál frekar í stað þess að afgreiða það nú eins og hér er lagt upp með. Eins og kom fram hjá ráðherra telur hann að lesa eigi málið og ræða með samgönguáætlun, sem þýðir væntanlega að ekki er ástæða til að afgreiða það í kvöld, í það minnsta.

Eitt langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í. Það kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta að verið sé að víkja frá reglum varðandi ábyrgð ríkissjóðs, þ.e. ein ákveðin fjármálaregla er tekin úr sambandi fyrir þetta verkefni. Ég ætla reyndar að koma inn á þetta í ræðu minni á eftir en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er verið að setja fordæmi með þessu, eða er til fordæmi fyrir því að við séum að (Forseti hringir.) teygja og sveigja reglur ríkissjóðs, ríkisábyrgðarreglur, með þessum hætti?