140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka mjög skýrt fram að talsmaður Vegagerðarinnar, vegamálastjóri, lagði áherslu á að tæknilega stæði ekkert í vegi fyrir því að ráðast í að gera tvenn göng á sama tíma, tæknilega væri það unnt. En hann hafði uppi varnaðarorð um hvaða afleiðingar það hefði. Það væri óheppilegra, það væri hugsanlega dýrara, það hefði áhrif á hvaða vinnuafl sinnti verkinu og möguleika Vegagerðarinnar til að annast eftirlitsskyldur sínar. Þetta vil ég að komi skýrt fram.

Varðandi Vaðlaheiðargöng og forgangsröðun í samgönguáætlun þá hef ég ekki séð þau forgangsröðuð, eftir því sem ég man best. Í þeim gögnum sem ég hef skoðað hafa þau iðulega staðið utan forgangsröðunar, einfaldlega vegna þess að menn hafa sett þau í samhengi einkaframkvæmdar eða blöndu af þessu tvennu eins og ég vísaði í, í þingskjalinu frá 2008 þar sem átti að fjármagna verkið að hluta til eða helmingi til úr ríkissjóði og helmingi til með veggjöldum. En það segja mér sérfræðingar Vegagerðarinnar að ef við værum að forgangsraða samkvæmt öryggiskröfum væri langur vegur frá því að Vaðlaheiðargöng væru ofarlega á blaði, það er bara staðreynd málsins. Það er fyrst og fremst þessi „ökonómíska“ sjálfbærni sem veldur því að þau eru sett í þennan forgang.

Varðandi röðun annarra hef ég sett fram fyrir hönd innanríkisráðuneytisins, samgönguráðs og þeirra aðila sem koma að mótun samgöngustefnunnar (Forseti hringir.) tillögur til samgöngunefndar. Núna er það samgöngunefnd sem alfarið tekur ákvörðun (Forseti hringir.) um það hvort hún lætur þá tillögu standa eða hvort hún breytir henni.