140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegagerðin er ekki óskeikul fremur en aðrar stofnanir, að sjálfsögðu, en allt of oft er hún höfð fyrir rangri sök, ekki síst vegna þess að hún er iðulega að framfylgja stefnu og ákvörðun sem við stjórnmálamennirnir réttilega tökum, það er okkar hlutverk að móta stefnuna, en eru stundum á skjön við það sem sérfræðingar Vegagerðarinnar helst vildu.

Varðandi tengivegi og áherslur Vegagerðarinnar hvað þá varðar, og reyndar vegagerð almennt, hefur það sjónarmið verið ríkjandi þar á bæ að láta þetta tvennt verða leiðarljósin, annars vegar öryggi og hins vegar hagkvæmni, að ráðstafa fjármunum á eins markvissan og hagkvæman hátt og nokkur kostur er. Það hefur átt við um breikkun vega, þegar ákveðið var hér á árunum 2007 og 2008 að fara í 2+2 vegi, t.d. á Suðurlandi og Vesturlandi, Reykjanesbrautin er svolítið utan sviga að þessu leyti, hafði Vegagerðin lagt til 2+1, þann kost sem við erum að taka núna enda hagkvæmari og þjónar öryggissjónarmiðum að fullu. Það voru stjórnmálamennirnir sem vildu fara aðrar dýrari og óhagkvæmari leiðir.

Hvað tengivegina áhrærir hefur Vegagerðin einmitt lagt áherslu á tvennt. Hún hefur viljað fá sem mest fjármagn til tengivega. Samkvæmt núverandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir 500 milljónum í stað 1.000 milljóna sem Vegagerðin vildi fá. Samkvæmt nýrri fjárfestingaráætlun vonumst við til að geta sett meiri peninga þarna inn. Hitt sem hún hefur lagt áherslu á er að gera tengivegina eins vel úr garði og á eins ódýran (Forseti hringir.) hátt og nokkur kostur er en þó þannig að öryggissjónarmiðum sé sem best þjónað.