140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla mér ekki að fara að svara hv. þingmanni um tæknileg atriði. En vegna þess að í mér vaka sömu spurningar og vegna þess að framsögumaður málsins, hv. þm. Björn Valur Gíslason, er kominn í salinn langar mig að fara yfir þetta aftur með Ríkisábyrgðasjóð og spyrja eins og hv. þingmaður gerði hvaða fordæmi séu fyrir þessu. Ég hygg að þessar reglur séu ekki ýkja gamlar þannig að það er ekki víst að fordæmin séu mörg. Þetta er auðvitað þannig að það sem gerist með frumvarpinu, verði það samþykkt, er að þrjár reglur verða að víkja til að þetta verkefni komist á koppinn, það er reglan um að sá sem ábyrgð fær leggi fram a.m.k. 20%, einn fimmta, þetta er nú ekki hærri tala, af heildar fjárþörf verkefnisins, að hann leggi fram viðeigandi tryggingar, tryggingar sem Ríkisábyrgðasjóður telur viðeigandi, og að þess skuli gætt að ábyrgð ríkissjóðs nemi ekki hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnisins. Og í öllum þessum þremur atriðum á að gefa þessu verkefni kost á að fara lengra en þessu nemur.

Ég ætla ekki að fjármálaráðherra sérstaklega, sem er flutningsmaður þessa frumvarps, tefli í þá tvísýnu með þetta að gera þetta án umhugsunar. Ég held að þetta hljóti að vera í samhengi við það að fjármálaráðherra hæstv. telji að hér sé ekki um neins konar einkaframkvæmd að ræða og ekki um neina eiginlega ríkisábyrgð að ræða, heldur sé ríkið í raun og veru að ábyrgjast sjálft sig í þessu efni og búa þannig til mjög undarlega myllu (Forseti hringir.) í kringum þetta verkefni og (Forseti hringir.) ég ræði það kannski í síðara andsvari hvaða álit ég hef á henni.