140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nokkuð til í því hjá hv. þingmanni að ef menn berja hausnum við steininn og vilja fá út göng verða það göng í ógöngum sem þá koma. [Hlátur í þingsal.]

Ég tek undir það að ég held að við eigum að veita okkur þann munað að skoða málið betur og þjóðarþörf sé á að gera það. Ég velti líka fyrir mér þessum göngum, ef af samþykkt þeirra verður á þingi í hvaða formi sem það verður, hvernig eigi að setja þau í röðina því að þau fara auðvitað í einhvers konar röð. Annaðhvort verða þau á undan Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum, sem við erum að fjalla um í umhverfis- og samgöngunefnd, eða blandast þeim með einhverjum hætti.

Ég hlusta grannt á það sem hæstv. innanríkisráðherra segir af Vegagerðinni, að Vegagerðin telji ekki heppilegt að það séu tvenn eða þrenn göng í smíðum á hverjum tíma, vegna þess að sá hagnaður sem ríkið á að njóta af þessum göngum kemur auðvitað ekki með neinum hætti fram fyrr en „cash-sweepið“ byrjar eftir sjö ár. Þá er eðlilegt að virða fyrir sér framkvæmdatíma þessara ganga þannig að þetta tekur um það bil áratug. Mér þætti ekki óeðlilegt að Vaðlaheiðargöng kæmu á eftir, ég tek undir með að mig minnir hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að Vaðlaheiðargöng komi á eftir Norðfjarðargöngum og að Dýrafjarðargöng hljóti líka að vera áleitin því að það er eðlilegt að grunnkerfi samgöngumála verði til áður en við förum að byggja ofan á það (Forseti hringir.) og greiða leið okkar.