140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kýs að orða svar mitt við spurningu hv. þingmanns þannig að ég fagna fyrirvara formanns fjárlaganefndar á nefndaráliti meiri hlutans.

Það er fróðlegt að kynna sér lögin frá 1997 um Ríkisábyrgðasjóð og forsendur þeirra. Mikið starf fór fram í nefnd fagmanna áður en þau voru samþykkt. Ég held að þau hafi breytt verulega starfsemi í kringum ríkisábyrgðir, gert þær faglegri og nútímalegri. Það er kannski ekki úr vegi í þessu andsvari að lesa úr athugasemdum um þá 3. gr. sem gert er ráð fyrir að vikið verði til hliðar, með leyfi forseta:

„Í greininni er kveðið á um það að ríkisábyrgð skuli einungis veitt ef lánsfjárþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði og sýnt þykir að þrátt fyrir það sé starfsemin hagkvæm, þ.e. að ætla megi að hún standi undir greiðslu þeirra lána sem ábyrgð ríkissjóðs er á.“

Síðan segir um 75 prósentin, með leyfi forseta:

„Eðlilegt þykir að lánveitandi taki nokkra áhættu með ríkissjóði á lánveitingum enda verður það þá til þess að hann meti vandlega þá áhættu sem er samfara lánsviðskiptunum.“ — Þessar reglur eru ekki settar út í bláinn. — „Að auki verði krafa um að 20% af þeirri fjárfestingu sem ábyrgðar nýtur fjármögnuð með eigin fé. Þessi skilyrði samanlögð jafngilda því að ábyrgð ríkisins getur mest orðið 60% af heildarfjárfestingu verkefnisins.“

Hér sést þó að ekki sé lesið nema úr athugasemdunum að þetta er þaulhugsað hjá nefndinni og hjá þinginu sem þetta samþykkti (Forseti hringir.) og mjög varasamt að bregða út af því eins og ekkert sé og við sjáum í frumvarpinu.