140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega það sem ég óttast. Það kemur fram í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að hér er verið að taka úr sambandi þá fjármálareglu sem ríkissjóður fer fram á í lögum um ríkisábyrgð um að leggja þurfi 20% af heildarfjárþörf til verksins, leggja fram viðeigandi tryggingar og gæta þess að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsþörf. Ríkisábyrgð er fyrst og fremst til þess að ábyrgjast framkvæmdir eða verkefni eða kaup á einhverju sem ekki fæst lán á almennum lánamarkaði til. Þess vegna þarf að gæta vel að því hvar ríkisábyrgð er veitt og í hvaða verkefni. Það kemur skýrt fram í frumvarpi til laga um ríkisábyrgð og hjá þeirri nefnd sem falið var að semja þau lög, að draga ætti mjög úr ríkisábyrgðum og fara varlega í þeim efnum og velja verkefnin vel. Þessi fjármálaregla var sett í lögin strax í upphafi (Forseti hringir.) og við þurfum að fara að þeim lögum þegar við samþykkjum önnur lög á þinginu.