140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar góð spurning en ég ætlaði kannski ekki að fara út í þá heimspeki sem þingmaðurinn fór yfir varðandi það að við værum ófullburða lýðræðisríki árið 1997. En þegar greinargerðin við lög um ríkisábyrgð er skoðuð er það eins og þetta hafi verið skrifað í dag, árið 2012. Og nú ætla ég, með leyfi forseta, að fá að lesa það hér.

„Skoðun nefndarinnar er að skuldbindingum og ábyrgðum ríkisins, og raunar annarra opinberra aðila, þurfi að gefa meiri gaum. Opinberir aðilar hafa orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum á liðnum árum vegna ábyrgða sem þeir hafa tekið á sig. Ábyrgðir á lánum einkaaðila hafa fallið á ríki og sveitarfélög, bein lán til atvinnufyrirtækja hefur reynst nauðsynlegt að afskrifa og eignir ríkisins í atvinnufyrirtækjum og fjármálastofnunum hafa rýrnað vegna tapa þessara aðila. Nefndin telur að stefna beri að því að draga úr ríkisábyrgðum einkum þar sem aðild ríkisins skekkir samkeppnisstöðu einkaaðila. Einnig telur nefndin brýna þörf á að reglur um veitingu ríkisábyrgða séu skýrar.“

Síðan segir hér aðeins neðar, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að ríkisábyrgðir beri að nota af mikilli gætni. Hin almenna regla hljóti alltaf að vera sú að lán séu tekin á almennum markaði, án ábyrgðar ríkisins. Ríkisábyrgðir geti hins vegar verið réttlætanlegar í vissum tilfellum en þá er mikilvægt að í gildi séu lög og reglugerðir sem kveði á um hvernig með þær skuli farið. Sérhvert tilvik þurfi að skoða mjög vandlega. Nauðsynlegt er að glöggt komi fram hvers vegna ríkisábyrgð er réttlætanleg, að áhætta sem ábyrgðinni fylgir sé metin og að eftirlit sé virkt með þeim sem ríkisábyrgðar nýtur. Einnig þarf að meta hættuna á því að ríkið tapi fjármunum vegna ábyrgðar- eða lánveitingar og leggja í afskriftasjóð í samræmi við það.“

Gæti þetta ekki akkúrat átt við árið 2012 eftir bankahrun, virðulegi forseti?