140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og svar mitt er: Jú, það gæti gert það. Ég hef litið á þessi lög þannig, og þó einkum greinargerðina eða athugasemdirnar með þeim, að hér er verið að setja lög vegna sárrar reynslu, sem ég minntist á áðan og hv. þingmaður taldi upp, vegna þess að menn hafa hreinlega misnotað þá möguleika sem í ríkisábyrgðinni lágu. Þess vegna er það furðulegt að menn skuli leggja þetta til núna og ég gat þess til í ræðu minni áðan að þetta væri kannski ekki — menn meintu þetta ekki þannig að það ætti að slá af ríkisábyrgðunum heldur væri þessi afsláttur veittur vegna þess að eðli fyrirbærisins er breytt. Hér er ekki lengur um neins konar einkaframkvæmd að ræða, þó að KEA og Samherji séu hugsanlega með í dæminu með einhverjum hætti, heldur er í raun og veru um ríkisframkvæmd að ræða á fullkominni ábyrgð ríkisins og (Forseti hringir.) þess vegna felst sú ríkisábyrgð sem hér er um að ræða aðeins í því að ríkið er að ábyrgjast sjálft sig. (Forseti hringir.) En, forseti, þetta er gríska aðferðin.