140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég hef fylgst með umræðum hér í dag frá fyrstu mínútu og fundist þær málefnalegar og gagnlegar. Ólíkra sjónarmiða hefur gætt en menn hafa rætt hlutina og nálgast viðfangsefnið mjög málefnalega.

Mig langar að fjalla aðeins um aðdraganda málsins og þá staðreynd að samgöngunefnd hefur ekki komið formlega að málinu eins og það er sett upp hér þrátt fyrir að hún hafi ítrekað og að eigin frumkvæði tekið málið upp.

Fyrr í umræðunni gerði ég að umtalsefni bréf sem meiri hluti samgöngunefndar, og meðal annars sá sem hér stendur, sendi 1. febrúar 2012 en þá hafði umhverfis- og samgöngunefnd kafað mjög vel ofan í málin. Í kjölfar opins fundar í umhverfis- og samgöngunefnd þann 7. nóvember sl. komu fram, þvert á allar flokkslínur, efasemdir hjá mörgum nefndarmönnum um að Vaðlaheiðargöng væru í eðlilegum farvegi og að þau gætu staðið undir sér.

Nefndin taldi á þessum tímapunkti mjög mikilvægt að fram færi einhvers konar óháð úttekt á málinu þar sem þetta væri skoðað. Ríkisendurskoðun var beðin um slíka úttekt en því var hafnað og urðu þær forsendur sem lágu til grundvallar mjög umdeildar. Eftir það liðu sex vikur áður en forsætisnefnd svaraði erindi nefndarinnar sem óskaði eftir því að leitað yrði til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Svör frá forsætisnefnd bárust umhverfis- og samgöngunefnd 13. janúar sl. þess efnis að fram hefðu komið skýrslur sem nefndin hefði til umfjöllunar og því væri ekki ástæða til að afgreiða þessa beiðni hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Var það skýr krafa hjá meiri hlutanum — nefndin var klofin í þessu máli svo að það sé bara sagt — að dýpra yrði kafað ofan í málið og efasemdir voru uppi meðal margra þingmanna varðandi það að grunnforsendur þessa verkefnis, Vaðlaheiðarganganna og þess módels sem búið var að setja upp í kringum þessa einkaframkvæmd, stæðust skoðun.

Fjármálaráðuneytið réð síðan IFS Greiningu til að meta framkvæmdina og það byggði á verklýsingu fjármálaráðuneytisins sjálfs. Í byrjun janúar birtist síðan skýrsla eftir Pálma Kristinsson verkfræðing sem gerði mjög alvarlegar athugasemdir við grunnforsendur þessa verkefnis. Pálmi vann þessa skýrslu sjálfstætt og að eigin frumkvæði en þess má geta að hann var einn aðalráðgjafi lífeyrissjóðanna í þessu máli á meðan þeir höfðu það til athugunar að fjármagna Vaðlaheiðargöng og ljóst að hann þekkti innviði málsins mjög vel og hafði miklar efasemdir um að þetta stæðist skoðun enda varð niðurstaðan sú að Vaðlaheiðargöng væru sísti kosturinn af þeim verkefnum sem þá var verið að skoða í tengslum við það að fara í einkaframkvæmd.

Umhverfis- og samgöngunefnd fór mjög vel yfir þessar greiningar og þær skýrslur sem unnar höfðu verið og sendi umrætt bréf þann 1. febrúar 2012 til fjárlaganefndar og til fjármálaráðherra. Niðurstöður meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar voru á þá leið að mikil áhætta fylgdi þessu fyrir ríkissjóð. Mig langar að lesa aðeins úr niðurstöðukaflanum, með leyfi forseta:

„Ekki hefur enn fundist einkaaðili sem er reiðubúinn að taka verkefnið að sér og líkur á að ríkissjóður muni í reynd sitja uppi með alla áhættuna. Vandséð er að Ríkisábyrgðasjóður geti tekið ábyrgð á lánveitingunni miðað við þau lög sem um sjóðinn gilda nema eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. verði aukið verulega en í því félagi á ríkissjóður ríflega helming hlutafjár.“

Þetta benti umhverfis- og samgöngunefnd strax á þarna og allar athugasemdir nefndarinnar, bæði varðandi þennan efnislega þátt og síðan þær reikningsforsendur sem eru að baki, koma fram í umsögnum um málið, meðal annars í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs sjálfs sem staðfestir það sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar sagði um málið á sínum tíma. Það er óhætt að segja að í þessu máli hefur samgöngunefnd þingsins, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að halda henni utan við málið, að eigin frumkvæði og frumkvæði þeirra þingmanna sem eru í nefndinni, og það hefur verið þvert á alla stjórnmálaflokka, tekið málið upp á sína arma vegna þess að menn hafa talið að þarna væri verið að gera hluti sem stæðust ekki skoðun.

Manni hefur sýnst á umræðum í dag að sú gagnrýni sem umhverfis- og samgöngunefnd setti fram í málinu hafi fyllilega átt rétt á sér. Ég vil taka undir með þeim sem viðrað hafa hugmyndir eins og þær að málið verði tekið af dagskrá, að fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd taki málið upp saman og leiti lausna. Ekki er hægt að samþykkja þá leið sem hér er lögð til án breytinga. Þarna á bæði að víkja frá reglum sem hafa gilt um ríkisábyrgð og að auki bendir Ríkisábyrgðasjóður á að ekki sé hægt að flokka þessa framkvæmd sem einkaframkvæmd.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður taki á sig alla áhættu varðandi fjármögnun verkefnisins ásamt því að þurfa að treysta því að fjárfestar vilji endurfjármagna það án ríkisábyrgðar eftir árið 2018. Það er einmitt þess vegna sem niðurstöður umhverfis- og samgöngunefndar voru á þann veg að réttast væri að vísa málinu inn í samgönguáætlun þar sem það yrði metið út frá þeim samgöngumannvirkjum sem ætlunin er að ráðast í á næstu árum. Það vill svo til að Alþingi er að vinna samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Mikil sátt hefur ríkt um það hér á Alþingi að vinna slíkar áætlanir og að henni hafa allir flokkar komið. Vissulega eru skiptar skoðanir um forgangsröðun, hvaða verkefni eigi að vera framarlega og hvaða verkefni eigi að bíða með, hvaða fjármagn sé til skiptanna o.s.frv., en sátt hefur ríkt um að vinna mál með þessum hætti.

Það er staðfest hér, af Ríkisábyrgðasjóði og fleiri aðilum, að þetta verkefni getur ekki flokkast sem einkaframkvæmd. Þetta er opinber framkvæmd og er fjármögnuð eftir leið sem menn hafa kallað gríska leið. Þetta á því að vinnast með samgönguáætlun, ég held að það væri heppilegasta lausnin eins og landið liggur. Vissulega má skoða hvort hægt er að ná einhverri málamiðlun í þessu — hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. þm. Mörður Árnason hafa komið inn á það — en það veit aldrei á gott þegar við erum komin út í það að víkja svona frá reglunum.

Gríska leiðin sem ég nefndi er ekki til eftirbreytni, þar er ekki um að ræða vinnubrögð sem við eigum að temja okkur. Við eigum að hafa allt uppi á borðum. Það væri mikill bragur á því að þingið allt tæki á þessu máli og endurskoðaði það.