140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:00]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að velta upp sem ákveðnu innleggi í þessa ræðu þingmanns og umræðuna um forgangsröðun ganga, hvort ekki sé eðlilegt og skynsamlegt að Alþingi ræði hvort það telji hyggilegt að ráðast í tvenn göng samtímis næsta ár eða ein. Það er ákveðinn grunnútgangspunktur hvort fólk telji við þessi tímamörk skynsamlegt að ráðast í gerð tvennra jarðganga samtímis á Íslandi.

Út frá því sem ég hef kynnt mér tel ég hyggilegast að ráðast í ein göng í einu og láta þau síðan fylgja hvert öðru. Eins og ég hef sagt áður er algerlega ljóst að þau fyrstu eiga ekki að vera Vaðlaheiðargöng. Ef ráðast á í tvenn göng samtímis spyr ég, og bið þingmenn allra kjördæma að velta því fyrir sér: Ef þau göng eiga að vera Norðfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng hvers eiga Vestfirðingar að gjalda? Þeir hafa beðið eftir Dýrafjarðargöngum um langt skeið og Dýrafjarðargöng voru á sínum tíma meira að segja á undan Norðfjarðargöngum í röðinni. (Forseti hringir.) Getum við boðið upp á þetta þegar allir viðurkenna að ef um gerð tvennra ganga er að ræða (Forseti hringir.) blasir við að Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng hafa forgang?