140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að víðtæk sátt ríki um þá aðferðafræði sem við notum til að forgangsraða samgönguframkvæmdum. Eðlilega vilja allir, allt í kringum landið og á höfuðborgarsvæðinu, fá samgöngur sínar bættar og allir vilja fá samgöngumannvirki. Það er alltaf svo, hvort sem það er á hágóðæristíma eða ekki, að menn vilja meiri framkvæmdir en mögulegt er að fara í hverju sinni. Það er bara eðli málsins samkvæmt. Skárra væri það.

En af því að hv. þingmaður notaði orðalagið „hreinn hnefaréttur“ um það þegar menn takast á um samgöngumál þá finnst mér, ég verð að segja eins og er, það vera gert núna. Menn eru að reyna að koma í gegn verkefni sem ætti í raun að flokkast sem opinber framkvæmd vegna þess að það stenst ekki að það sé einkaframkvæmd, eftir alla þá skoðun og vinnu sem lögð hefur verið í að meta það, og staðreyndin er sú að það ætti að vera aftar í röðinni, aftar en til að mynda Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng. Í þessu tilfelli finnst mér menn einmitt vera að reyna að koma málum áfram á hnefanum sem ættu að vera annars staðar í röðinni.

Um þær vangaveltur hv. þingmanns að hægt verði við vinnslu samgönguáætlunar að taka tillit til greiðslu veggjalda finnst mér sjálfsagt að skoða það. En ég ítreka að slíkt á að vera unnið í samgöngunefnd þingsins sem er með samgöngumálin á sinni könnu. Það er sjálfsagt að við vinnslu samgönguáætlunar sé þeim möguleika velt upp og við þurfum í raun að skoða til framtíðar hvernig við háttum þeim málum, (Forseti hringir.) fjármögnun verkefna, veggjöldum og öllu sem því tengist. En ég tek heils hugar undir þessar vangaveltur hv. þingmanns.