140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti, góðir landsmenn. Við hefjum þessa umræðu í miðjum önnum á Alþingi. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að ágreiningur um þingstörfin er mikill. Vegna skipulagsleysis og innri baráttu stjórnarflokkanna var það ekki fyrr en nú á síðustu vikum sem ríkisstjórninni tókst að koma nokkrum af sínum stóru málum til meðferðar í þinginu. Yfirgangur framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarsamkundunni hefur náð nýjum hæðum á þessu kjörtímabili. Á síðustu þremur árum hafa hrúgast inn mál á síðasta mögulega degi, yfir 50 mál hvert ár. Þar á meðal eru grundvallarmál, auk verulegra ágreiningsmála sem hafa verið lögð svo seint fram vegna átaka um efni þeirra í ríkisstjórnarflokkunum.

Dæmi um slík mál eru sjávarútvegsfrumvörpin og rammaáætlun. Hvað rammaáætlun varðar virðist þingið eiga að samþykkja pólitíska niðurstöðu tveggja ráðherra orðalaust. Við slíkar aðstæður er það skylda þingsins og stjórnarandstöðunnar að grípa í taumana og stöðva þessa frekju framkvæmdarvaldsins. Það er ekki hægt að koma upp í ræðustól eins og einstakir stjórnarliðar hafa gert og lýsa yfir meiri hluta í vanbúnum málum og telja að þar með sé hlutverki Alþingis lokið og að ganga eigi til atkvæða.

Alþingi Íslendinga býr nú við það að traust á störfum þess er í lágmarki. Við það verður ekki unað lengur. Lykilatriði í því að skapa hér traust að nýju er að setja á dagskrá mikilvæg mál sem skipta hag landsmanna máli, að setja fram fullbúin mál og sýna þá forustu og þroska sem þarf til að umræða hér gangi vel fyrir sig. Slíka forustu ættum við að sjá frá ríkisstjórn.

Það þarf forustu til að leiða þessi ágreiningsmál til lykta og í því felst að vita hvenær á að gefa eftir, hvenær verður ekki lengra haldið. Því miður hefur það einkennt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að hafa enga tilfinningu fyrir því hvenær nóg er komið, heldur er haldið áfram með hvert einasta mál út í hið óendanlega. Ágreiningur er orðinn daglegt brauð hér í þessu húsi. Þessi fráleitu vinnubrögð koma niður á störfum þingsins og eru engum til hagsbóta.

Eitt alvarlegasta dæmið um yfirgang þessarar ríkisstjórnar er stjórnarskrármálið. Allt frá upphafi hefur það mál verið í ógöngum. Enginn raunverulegur vilji hefur verið til þess að ræða inntak tillagna stjórnlagaráðs og hvort raunverulegur vilji sé til þess á þingi að gera eins miklar breytingar á stjórnarskránni og þar er lagt til. Það hefur ekki verið rætt heldur hefur allt snúist um formsatriði og skoðanakannanir í þessu grundvallarmáli.

Það vekur líka furðu að á meðan við erum með heimili og fyrirtæki í miklum vanda virðist það vera helsta verk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að gera stöðugt tilraunir til að breyta stjórnarskrá. Ef það er mikill vilji til breytinga, sem virðist raunar ekki vera miðað við undanbrögð meiri hlutans, skulum við setjast niður og fara yfir það saman. Breytingar á stjórnarskrá bæta ekki hag heimila og fyrirtækja. Eigum við ekki að setja þau mál í forgang fyrst?

Góðir landsmenn. Á meðan á þessu gengur sjáum við enn alvarleg teikn á lofti í efnahagslífi þjóðarinnar. Við fyrstu sýn virðist hagur okkar vera að vænkast en þegar tölurnar eru rýndar kemur ýmislegt í ljós. Atvinnuvegafjárfesting er í slíku lágmarki að það þarf að gera miklu betur. Sú fjárfesting er drifin áfram af stórum fjárfestingum í grunnatvinnugreinum okkar en ekki vexti hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í hagvaxtartölum sjáum við þess ekki stað að atvinnulífið sé að taka við sér. Það er greinilegt að góður gangur í loðnuveiðum hefur skilað auknum hagvexti en vöxtur er ekki sjáanlegur heilt yfir sviðið í þessu hryggjarstykki sem lítil og meðalstór fyrirtæki eru í landinu. Þar er þorri starfa, þar skiptir öllu máli að vel gangi. Þar hefur ríkisstjórnin brugðist algjörlega.

Nýjasta útspilið í loforðum um þúsundir starfa breytir engu þar um. Ríkisstjórnin hefur ítrekað brugðist litlum og meðalstórum fyrirtækjum, alveg eins og hún hefur brugðist heimilum landsins. Tölurnar benda sem sagt til þess að í þeim atvinnugreinum þar sem ríkisstjórnin hefur skapað mesta óvissu fáist tekjurnar.

Til viðbótar eru verðbólgutölurnar. Verðbólgan nærist á hækkun opinberra gjalda, eldsneytishækkunum og gengissigi. Við skulum hafa í huga að meginþunginn í eldsneytisverði er einnig opinber gjöld svo ríkið verður að líta í eigin barm og hefja lækkun þessara gjalda án tafar.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði í vetur fram frumvarp um slíka lækkun annað árið í röð en sú kjarabót fyrir heimilin og fyrirtækin hefur ekki fengist afgreidd. Það er athyglisvert að verðbólga virðist ekki skýrast af öðrum hækkunum innan lands. Hið opinbera ber sjálft mesta ábyrgð á því með gjaldskrárhækkunum af öllu tagi og það er óviðunandi staða.

Við okkur blasir eitt brýnasta verkefnið okkar í efnahagsmálum, afnám gjaldeyrishafta. Við höfum nú búið í haftasamfélagi í þrjú og hálft ár. Þegar höftin voru sett á var talað um nokkra mánuði, ekki mörg ár. Höftin áttu að vera viðbrögð við neyðarástandi, ekki viðvarandi ástand. Við sjáum ekki enn fyrir endann á þessu tímabili, þvert á móti er stöðugt verið að herða höftin með tilheyrandi skaða fyrir heimili og ekki síst atvinnulífið í landinu. Þorri almennings verður stöðugt meira var við þennan haftabúskap. Ljóst er að hin stífa stefna Samfylkingarinnar í Evrópumálum, sem eina raunhæfa leiðin af þeirra hálfu til afnáms haftanna, hjálpar ekki til. En hún má ekki koma í veg fyrir að þess verði freistað að ná pólitískri samstöðu milli allra stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins um þetta verkefni.

Samtök atvinnulífsins hafa þegar talað skýrt í þessu efni og á vettvangi ASÍ hefur margoft verið ítrekað mikilvægi afnáms haftanna. Það reynir því á stjórnmálamenn og enn og aftur forustu til að leiða þessi mál til lykta. Sú forusta hefur brugðist í allt of mörgum málum á undanförnum missirum. Reyndar er fullreynt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nái samstöðu um nokkurn hlut ein og sjálf. Þó er til mikils að vinna fyrir okkur hér að sameinast um afnám haftanna.

Ágætu landsmenn. Það skal engan undra að hvessi í þingsölum þegar svo mörg umdeild mál eru lögð fram, og það allt of seint. Ekkert þeirra snýr þó að því að bæta hag heimilanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað viljað rýma til á dagskrá þingsins svo mikilvæg mál fáist rædd. Á það hefur ekki verið hlustað.

Ég vil hér enn einu sinni rétta fram sáttarhönd. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til þess að ná fram þverpólitískri sátt um þau mál sem snúa að því að bæta hag heimila og fyrirtækja. Við þurfum að leysa skuldamál heimilanna og við þurfum að skapa umhverfi þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki geta vaxið, ráðið starfsfólk og horft til framtíðar.

Á meðan of mörg heimili ná ekki endum saman og fyrirtæki geta ekki vaxið leggur ríkisstjórn sem hefur í raun ekki meiri hluta á bak við sig áherslu á pólitíska hugmyndasigra.

Nú er mál að linni, góðir landsmenn. Við skulum setja heimilin og fyrirtækin í fókus. Það er ábyrgð okkar að taka höndum saman og bæta hag þeirra. Til þess vorum við kjörin. — Góðar stundir.