140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Sá viðsnúningur sem náðst hefur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum frá hruninu 2008 og eftir hið erfiða samdráttarár 2009 er okkur Íslendingum að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægur. En um leið er þessi árangur markverður af ýmsum ástæðum. Það hefur ekki aðeins náðst að rétta að mestu leyti af halla ríkissjóðs og stöðva skuldsetningu hans, heldur einnig að koma þó nokkuð þróttmiklum hagvexti af stað. Hagkerfið tók að snúa við út úr samdrætti á síðari hluta árs 2010 og á árinu 2011 mældist hagvöxtur hér yfir 3%. Samkvæmt nýjustu spá Efnahags- og framfarastofnunarinnar er gert ráð fyrir svipuðum hagvexti á þessu ári þó að spár Hagstofu og Seðlabanka hljóði upp á nokkru lægri tölu eða um 2,6%.

Raunar er það svo, þó það hafi ekki komið fram í máli þeirra tveggja ræðumanna sem hér töluðu frá stjórnarandstöðunni, að hagvöxtur á Íslandi er um þessar mundir einhver sá mesti sem finnst meðal þróaðra hagkerfa. Hann er meiri en í nær öllum löndum Evrópusambandsins. Hann er meðal þess hæsta sem þekkist innan OECD. Hann er meiri en í Bandaríkjunum. Hann er meiri en í Japan. Og hann er meiri en í Noregi.

Þetta er ekki sagt hér til þess að hefja aftur sönginn um „Ísland best í heimi“ eða öll okkar vandamál séu að baki, en það er augljóst af því hvernig öðrum löndum er að ganga að þetta er ekki sjálfgefið. Það er líka ágætt að minnast þessa í ljósi þess óskaplega svartagallsrauss sem hér hefur iðulega hljómað í sölum Alþingis. Út frá hagrænu sjónarmiði er þetta mjög markvert vegna þess að þrátt fyrir erfiðar og umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hefur náðst að koma hagvexti aftur í gang.

Margir töldu að með þeim aðgerðum sem hafist var handa um á miðju ári 2009 og með ákaflega erfiðum en óumflýjanlegum aðhaldsfjárlögum 2010, 2011 og 2012 væri hætta að Ísland lendi í svonefndri tvöfaldri dýfu, þ.e. að svo mikill samdráttur hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, á sama tíma og erfiðleikar gengu yfir heimilin og einkageirann, mundi leiða til enn dýpri kreppu eða að önnur niðursveifla mundi fljótlega fylgja hinni fyrri — sem sagt; hættan á tvöfaldri dýfu.

Þetta hefur ekki orðið reyndin. Það er ekkert sem bendir til þess að svo verði. Fyrir því eru margar og samverkandi ástæður. Fall krónunnar studdi að sjálfsögðu vel við útflutnings- og samkeppnisgreinarnar, jók tekjustreymi til þeirra sem aftur er svo farið að hafa áhrif á vöxtinn og fjárfestingar eins og til dæmis má sjá í öflugri uppbyggingu í ferðaþjónustu.

Ég fullyrði að það er önnur ástæða sem skýrir að hluta líka hvers vegna tekist hefur að forðast tvöfalda niðursveiflu og koma hagvexti á stað þrátt fyrir erfiðar umfangsmiklar en óumflýjanlegar aðgerðir í opinberum fjármálum. Það er sú staðreynd að ríkisstjórnin valdi ekki hefðbundnar niðurskurðarleiðir, heldur hlífði velferðarkerfinu, forgangsraðaði þannig og fór blandaða leið tekjuöflunar og aðhalds. Sú blandaða leið hefur reynst efnahagslega farsæl. Því geta menn ekki neitað nema þeir séu tilbúnir til að horfa algerlega fram hjá opinberum hagtölum.

Ef menn kjósa að gera það er það út af fyrir sig önnur umræða, en þeir sem taka mark á opinberum hagtölum, innlendum sem erlendum, geta ekki lengur neitað þessari staðreynd, nú þegar við erum komin inn á fjórða ár þessarar ríkisstjórnar, að okkar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, sú blandaða leið sem við höfum farið, hefur reynst efnahagslega farsæl, komið Íslandi betur í gang en nánast nokkru öðru þróuðu hagkerfi sem er að vinna sig út úr erfiðleikunum.

Ég tel að það hafi verið sérstaklega mikilvægt að hlífa velferðarsamfélaginu eins og gert var, t.d. með því að skerða ekki almannatrygginga- og atvinnuleysisbætur t.d. með því, þrátt fyrir lítið svigrúm, að styðja við skuldug heimili með stórauknum vaxtagreiðslum og sérstökum vaxtaniðurgreiðslum, með því að fara blandaða leið tekjuöflunar og aðhaldsaðgerða.

Vissulega hafa kjarasamningar, sem miðuðu að því að hækka lægstu laun sérstaklega og tengdar hækkanir bóta, hjálpað til. Þær hafa haldið uppi kaupmætti tekjulægri hópa samfélagsins sem sýnir sig að vera efnahagslega mjög skynsamlegt.

Það sætir einnig tíðindum að þvert á þróun mála í nánast öllum öðrum Evrópulöndum dregur nú umtalsvert úr atvinnuleysi hér. Það stóð í 6,5% í aprílmánuði síðastliðnum og með sama takti mun það fara undir 6% strax nú í maí, eða í síðasta lagi í júní. Það verður þá um svipað leyti og íbúatala landsins rýfur í fyrsta sinn 320 þúsunda markið.

Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur því sem næst náðst jöfnuður aftur í búferlaflutningum til og frá landinu. Auðvitað spilar margt inn í. Atvinnuleysi hefur minnkað. Betri gangur er í hagkerfinu almennt og líka þau átaksverkefni sem stjórnvöld hafa í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin ráðist í. Til dæmis átakið Nám er vinnandi vegur. Einhverjum þótti lítið til koma og ýmsir reyndu að tala það niður og sögðu: Ja, það er nú lítið að marka þó að atvinnuleysi lækki, það er bara vegna þess að það er fleira fólk í skólunum. Ég segi: Já, en er það ekki gott? Var það ekki það sem við vildum? Er það ekki nákvæmlega það sem að var stefnt og er það ekki lærdómurinn frá kreppunni í Finnlandi að meðan erfitt er á vinnumarkaði hvetjum við ungt fólk og atvinnuleitendur til þess að nota tímann til að mennta sig? Við fjárfestum þannig í framtíðinni og í betri lífskjörum og lífsgæðum og möguleikum þessa fólks. Þannig að einnig þar eru aðgerðirnar að heppnast og hafa sannað gildi sitt.

Samandregið er það þannig að allir helstu hagvísar vísa nú í rétta átt. Hagvöxtur stefnir í að verða nálægt 3% tvö ár í röð og horfur næstu árin eru ágætar. Atvinnuleysi nú er þremur prósentustigum lægra miðað við árstíðaleiðréttar tölur og það var þegar það var verst. Fjárfestingar, einkum atvinnuvegafjárfestingar, eru á umtalsverðri uppleið. Þær ásamt aukinni útflutningsstarfsemi leggja mest til vaxtar landsframleiðslunnar, öfugt við það sem svartsýnisspámenn sögðu hér í þessum sölum þegar þeir hættu að geta neitað því lengur að bati væri hafinn. En þá sögðu menn hér í hálft ár: Já, en það er tímabundið vegna þess að það er bara einkaneyslubóla sem drífur hagvöxtinn. Hvað kemur nú í ljós? Nei, það er öfugt. Það er útflutningsstarfsemin og það eru auknar fjárfestingar sem eru í fyrsta og öðru sæti þess sem drífa áfram hagvöxtinn. Einkaneyslan kemur í þriðja sæti. Þannig að allt hefur gengið eftir og allt hefur það reynst rangt, sem betur fer, sem þeir svartsýnu héldu hér fram.

Opinber fjármál eru að komast í jafnvægi, bæði fjármál ríkis og sveitarfélaga. Skuldasöfnunin hefur stöðvast og skuldir munu núna fara lækkandi á æstu árum sem hlutfall af aukinni landsframleiðslu. Kaupmáttur er að vaxa annað árið í röð. Verðbólga er vissulega áhyggjuefni. Gjaldeyrishöftin eru enn til staðar. Atvinnuleysi er auðvitað of mikið þó það sé að lækka. Og skuldabyrði margra heimila er of þung. Það mun þurfa áframhaldandi aðgerðir til að standa við bakið á þeim einkum og sér í lagi skuldsettum ungum barnafjölskyldum.

Fjárfestingaráætlunin sem ríkisstjórnin hefur kynnt er til marks um að nú erum við að snúa enn meira vörn í sókn. Við ætlum að styðja við efnahagsbatann og skapa fleiri störf og ná landinu hraðar út úr þessu nú þegar við erum komin í aðstöðu til þess. Auðvitað er staðan hér á hinu háa Alþingi nokkurt áhyggjuefni, en Alþingi er vinnustaður og þjóðin mun ekki vorkenna þingmönnum þó að við þurfum að vinna eitthvað lengur fram í vorið eða sumarið. Hún mun fyrst og fremst ekki fyrirgefa okkur ef við förum heim án þess að hafa lokið okkar störfum eins og við værum grásleppusjómenn sem færum frá netunum á miðri vertíð og skildum þau eftir í sjó eða bændur sem hlypu út á miðjum sauðburði. Þannig þjóðþing ætlum við ekki að hafa hér.

Það dugar ekki, með fullri virðingu fyrir varaformanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ólöfu Nordal, að kenna öllu öðru en Alþingi um það sem hér fer fram, hvað þá stjórnarandstöðunni. Auðvitað berum við öll ábyrgð, það er rétt, meiri hlutinn og ríkisstjórn en það gerir stjórnarandstaðan líka. Og ætli andsvör við sjálfan sig dögum og vikum saman segi ekki allt sem segja þarf um það mál.

Góðir landsmenn. Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma en við erum hægt og bítandi og jafnt og þétt að sigrast á þeim og eftirleikurinn verður auðveldur borið saman við það sem að baki er.

Ég óska landsmönnum góðs og gleðilegs sumars. Við eigum það svo sannarlega skilið núna að það viðri vel og við njótum þess að eiga gott sumar og að okkur gangi sem flest í haginn.