140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Þegar kastljós fjölmiðla beinist að Alþingi er athyglin jafnan á það sem sundrar og skilur að. Ásakanir ganga milli stjórnar og stjórnarandstöðu og á stundum virðumst við vera ósammála um nánast allt. Í þessari ræðu minni mun ég tala um það sem á að sameina okkur þingmenn. Það á að vera forgangsverkefni okkar allra, sama hvar í flokki við stöndum, að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og standa við markmið áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í ár nema vaxtagreiðslur ríkissjóðs rétt um 80 milljörðum kr. Ég efa ekki að við gætum öll hugsað okkur uppbyggilegri not fyrir þessa fjármuni. Þrátt fyrir sumarblíðuna úti verðum við að horfast í augu við þann kalda raunveruleika að vaxtakostnaður mun halda áfram að aukast á meðan ríkissjóður er rekinn með halla. Þess vegna verður það aldrei sagt nógu skýrt eða afdráttarlaust: Við verðum að stöðva hallarekstur ríkissjóðs og það er staðföst ætlun okkar að ná því markmiði á árinu 2014.

Gagnrýnendur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vilja gera sem minnst úr þeim árangri sem hún hefur náð. Þeim hinum sömu er hollt að rifja upp þá skelfilegu stöðu sem þjóðarbúið var í þegar ríkisstjórnin tók við í kjölfar hruns bankanna og eftirskjálfta þess. Á þeim þremur árum sem liðin eru hefur náðst árangur sem eftir er tekið víða um heim. Enn er þó á brattann að sækja og enn höfum við ekki náð á þann áfangastað sem við ætlum okkur. Það sem öllu skiptir hins vegar er að okkur miðar vel og örugglega áfram. Við höfum gengið saman á brattann með þungar byrðar sem líkja má við stein sem koma þarf á tryggan stað. Við höfum lagt áherslu á að dreifa af sanngirni álaginu og hlíft þeim sem helst hafa þurft á því að halda en öll höfum við lagt okkar af mörkum.

Nú sér loks fyrir endann á þessari krefjandi og torsóttu göngu og margir eru sárir eftir bölvaðan steininn. En við megum ekki sleppa takinu á steininum þunga og horfa á eftir honum niður brattann einungis til þess að þurfa að hefja gönguna með hann upp að nýju. Ég efa ekki að mikill þrýstingur verður á aukin útgjöld á komandi kosningavetri og vissulega eru mörg brýn og góð verkefni sem gott væri að ráðast í.

Árangur af aðhaldssömum ríkisrekstri hefur ekki látið á sér standa. Sá árangur og jákvæð þróun lánshæfismats gaf okkur meðal annars tilefni til að sækja á lánamarkaði og ná góðum kjörum. Ríkissjóður er smátt og smátt að öðlast traust á alþjóðamörkuðum og til marks um endurheimt traust er að á síðasta ári gaf ríkissjóður út eins milljarðs dollara skuldabréf til fimm ára og í síðasta mánuði annað eins til tíu ára á ásættanlegum kjörum. Ríkissjóður hefur því mikilvæga hlutverki að gegna að ryðja brautina fyrir íslensk fyrirtæki sem þurfa á erlendu lánsfé að halda og síðasta skuldabréfaútboð var stórt skref í þeirri vegferð. Því var það einstaklega ánægjulegt að fá þær fréttir að Orkuveita Reykjavíkur hafi náð samningum við lánardrottna sína um lengingu lána, en fyrirtækið átti að greiða háar afborganir á næsta ári og hefði það sett umtalsverðan þrýsting á gjaldeyrisjöfnuð landsins. Þessar ánægjulegu fréttir eru vísbending um það sem koma skal og á þá staðreynd bentu greiningaraðilar í liðinni viku.

Íslenska ríkið er að byggja upp aðgengi að fjármagnsmörkuðum til framtíðar. Við viljum ómögulega vera háð einstökum lánveitendum og höfum nú með skuldabréfaútboðunum hafið niðurgreiðslu neyðarlána frá nágrannaþjóðum og alþjóðastofnunum.

Afar brýnt er að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera því að gera má ráð fyrir að aukinn halli geti þrýst upp innlendu vaxtastigi og þannig gert fjárfestingaráform einkaaðila ótryggari. Fjármögnunarkostnaður ríkisins yrði jafnframt meiri og ekki útilokað að áhættuálag og skuldbindingar ríkissjóðs hækki þá á ný og vegna þrýstings á gengi krónunnar í kjölfarið væri hætta á aukinni verðbólgu.

Það á því ekki aðeins að vera áhugamál fjármálaráðherra heldur allra hv. þingmanna að halda útgjöldum hins opinbera í takt við tekjur og komast sem fyrst í þá stöðu að geta greitt niður skuldir. Vissulega þarf að auka tekjur og stuðla að auknum hagvexti og finna leiðir til að lyfta framkvæmdastigi án þess að kalla á aukin útgjöld úr ríkissjóði. Dæmi um slíka framkvæmd eru Vaðlaheiðargöng þar sem veggjöld greiða niður kostnaðinn.

Í upphafi máls míns líkti ég glímunni við að byggja upp íslenskt samfélag og endurstilla það í anda jöfnuðar við erfiða göngu upp brattann með þungan stein sem yrði að koma á tryggan stað. Við höfum mætt mótbyr í þessari göngu, að okkur hafa sótt gjammandi hælbítar, og eflaust höfum við stöku sinnum tekið rangan afleggjara, en markmiðið sem við munum ná er skýrt; það er réttlátt, kraftmikið og skapandi Ísland með nýja stjórnarskrá, aukna velferð og réttlátari skiptingu byrða og arðs af auðlindum þjóðarinnar. — Góðar stundir.