140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Góðir Íslendingar. Aldrei þessu vant fannst mér gott að fá stækkunarstjóra Evrópusambandsins í heimsókn. Stefan Füle stækkunarstjóri staðfesti nefnilega það sem sumir þóttust vita að ef menn einhentu sér í helstu ágreiningsmál væri hægt að ljúka viðræðum um ESB á skömmum tíma. Orðrétt sagði stækkunarstjórinn í sjónvarpsviðtali:

„Það er ætlun mín að fyrir þingkosningarnar verði öll spilin komin á borðið, þar á meðal erfiðustu kaflarnir …“

Öll spilin verði komin á borðið. Þetta þýðir að sá tími er að renna upp að við getum efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu á þeim upplýstu forsendum sem margir hafa kallað eftir þótt ég sé í þeim hópi sem litið hefur svo á að málið snúist fyrst og fremst um það hvort Íslendingar vilji undirgangast stjórnarskrá, lög og regluverk Evrópusambandsins með öllu því sem fylgir. Að skilja þetta til hlítar er að skilja málið á upplýstan hátt.

Að mínu áliti er viðfangsefnið nú að leita eftir samstöðu um dagsetningu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt verði: Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið?

En aftur að Stefan Füle stækkunarstjóra. Í fyrsta skipti þótti mér viðurkennt af hálfu talsmanns Evrópusambandsins að hraði viðræðna er háður vilja samningsaðila. Hitt er öllum ljóst og hefur lengi verið að endanlegur frágangur samninga getur tekið miklu lengri tíma með aðlögun, fínsaumi og bróderingum. Það er hins vegar ekki verkefnið. Það má nefnilega aldrei henda okkur sem henti Norðmenn fyrir 20 árum. Þeir sóttu um aðild að Evrópusambandinu, sátu við samningsborð í hálft annað ár, undirrituðu samning — það gerðu líka öll aðildarríki ESB — en þegar allt virtist vera klappað og klárt sagði norska þjóðin hins vegar nei. Það er mál manna að ESB hafi látið Norðmenn gjalda þess í samningum í að minnsta kosti hálfan áratug að hafa dregið ríki Evrópusambandsins á asnaeyrunum með þessum hætti. Þetta á ekki að henda okkur. (Utanrrh.: Samanber makríl.)

Þau okkar sem greiddu atkvæði með því að fara í þessa vegferð sáu ekki fyrir sér viðræður sem teygðu sig yfir í nýtt kjörtímabil og urðu tilefni alls þess tilkostnaðar og þeirrar sundrungar sem raunin hefur orðið á. Fæstir sáu fyrir sér þær hrakfarir Evrópusambandsins sem við verðum nú vitni að.

Ég er ekki í hópi þeirra sem mælast til þess að við hlaupumst frá þessu verki, síður en svo, en við eigum að sammælast um að knýja fram niðurstöðu fyrr en síðar. Á nýju kjörtímabili endurnýjast öll umboð í stjórnvöldum og þjóðin á rétt á aðkomu að þessu máli á beinan og lýðræðislegan hátt áður en það gerist og helst vel áður en það gerist. Annars óskum við Evrópusambandinu alls góðs. Evrópa er í vanda og evran er í vanda.

Í aprílbyrjun lak til fjölmiðla plagg úr ESB-herbúðum hins ókjörna en valdamikla Hermans Van Rompuys um björgunaraðgerðir vegna evrunnar. Þar kom fram tillaga um að fá páfann til að biðja fyrir evrunni. Á plagginu kom fram að það væri nú eina trúverðuga áætlunin um framtíð gjaldmiðilsins. [Hlátur í þingsal.] Síðar kom í ljós að plaggið var dagsett 1. apríl, en einhverjir tóku bæði páfann og Rompuy alvarlega. Það gera sumir Íslendingar einnig en þeir eru samt í miklum minni hluta. (Gripið fram í.)

Það var gott að komast í sólina nú um hvítasunnuhelgina. Allir sem maður hitti voru í góðu skapi. Það er góð tilbreyting. [Hlátur í þingsal.] Annars er ástæða til að vera stundum í góðu skapi, líka á þessum samanbitna vinnustað sem á að hafa yfirsýn yfir þjóðfélagsþróunina.

Árið 2009 var hallinn á ríkissjóði um 215 milljarðar. Nú er hann þó kominn niður í 20 milljarða. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að atvinnuleysi á Íslandi er nú rúmum þremur prósentustigum minna en það var í kjölfar hrunsins, 6,5% í stað 9,3% og minna en meðaltalið á evrusvæðinu sem er um 11%?

Nú þegar sést til sólar á efnahagshimninum er það ánægjuefni að geta sett aukna fjármuni í framkvæmdir. Það er mikið gleðiefni eftir að finna fyrir samstöðu Vestfirðinga og Austfirðinga um flýtingu jarðganga að geta orðið við þeirri ósk.

Samgöngur skipta okkur grundvallarmáli og eru hinar dreifðu byggðir eðli máls samkvæmt háðari samgöngubótum en þéttbýlið. En á sama tíma ráðumst við í stórátak til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Þessar framkvæmdir og aðrar, nýtt fangelsi sem sorgleg dæmi sanna að löngu er kominn tími til að verði reist, munu skapa mörgu fólki störf. Atvinna er það sem skiptir alla einstaklinga og allar fjölskyldur grundvallarmáli. Ef atvinnan hverfur hverfur lífsbjörgin og stundum, kannski alltaf, líka lífsgleðin.

Það eru fleiri ástæður til að gleðjast. Á þessu kjörtímabili hafa mannréttindi fengið styrkari stöðu og er þeim skipaður sérstakur staður í skipuriti innanríkisráðuneytisins. Árangur þessa er þegar mikill. Endurskoðun útlendingalaga stendur nú yfir með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi.

Ráðuneytið hefur staðið fyrir viðamiklu samráði um meðferð kynferðisafbrota í réttarkerfinu og mánaðarlega eru haldnir opnir fundir um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindamálum. Aðgerðir og nauðsynlegar lagabreytingar þurfa að haldast í hendur við umræðu, því sama hversu góður lagabókstafur getur orðið fæst ekki virðing fyrir mannréttindum með honum einum. Hugarfar og afstaða samfélagsins getur gengið á skjön við réttindi sem eiga að heita varin lögum samkvæmt. Þarna bera stjórnvöld ábyrgð. Og þau, stjórnvöldin, og við, löggjafinn, eigum alltaf að vera málsvarar mannréttinda og halda umræðunni um þau hátt á lofti.

Nóg að sinni. Úti skín sólin enn. Vonandi skín sól á okkur í allt sumar. — Góðar stundir.