140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk í arf, eftir 17 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, fjármálakerfi í rústum, mesta fjárlagahalla lýðveldistímans, hæsta atvinnuleysi á síðari tímum, stökkbreyttar skuldir heimila og fyrirtækja, gjaldmiðil í frjálsu falli. Árið 2008 hrundi ekki bara fjármálakerfið og efnahagsleg afkoma þjóðarinnar, traust almennings á lykilstofnunum stjórnkerfisins, þar á meðal Alþingi, hrundi með. Það mun taka langan tíma, mörg ár, að reisa það við eins og alltaf þegar trúnaðarbrestur verður í samskiptum manna.

Nú rúmum þremur árum eftir hrun blasir önnur og hagfelldari mynd við í þjóðarbúskapnum, við erum á góðri leið út úr kreppunni og skýr merki eru um efnahagsbata. Hagvöxtur er meiri á Íslandi en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu, atvinnuleysið hefur minnkað um þriðjung, kaupmáttur fer vaxandi, skuldir heimila hafa verið lækkaðar um 200 milljarða og ríkisstjórninni hefur tekist að minnka fjárlagahallann um 80%.

Það er vegna þessa árangurs sem ríkisstjórnin getur nú snúið vörn í sókn og tekist af fullu afli á við atvinnuleysið, sem enn er hátt í sögulegu samhengi og enn er allt of hátt. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er áætlun um atvinnusköpun um land allt — en hún sýnir líka í verki að það skiptir máli hverjir stjórna. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu megináherslu á uppbyggingu í stóriðju á sinni tíð en ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggur höfuðáherslu á samgöngubætur um allt land og jafnræði milli atvinnugreina, fjölbreytta uppbyggingu ekki síst vaxtargreina í atvinnulífinu og umfram allt í sátt við umhverfið.

Þar skal fyrsta telja ferðaþjónustu. Fjöldi erlendra ferðamanna hefur tvöfaldast á áratug en uppbygging aðstöðu á mikilvægustu ferðamannastöðum hefur engan veginn haldist í hendur við þá miklu ásókn. Sú þróun getur einungis endað illa að óbreyttu og því markar það tímamót að ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að verja ríflega 2,2 milljörðum kr. á næstu þremur árum í uppbyggingu á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum.

Skapandi greinar fá verðskuldaðan sess í þessari áætlun, aðgangur þeirra að rannsóknafé mun stóraukast og framlög til Kvikmyndasjóðs verða tvöfölduð sem mun skila sér í sexfalt hærri framlögum úr erlendum sjóðum.

Framlög til rannsókna- og þróunarsjóða verða aukin um 6 milljarða kr. sem mun fela í sér tvöföldun fjárveitinga til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Þetta markar hrein vatnaskil því að þessir sjóðir hafa þurft að hafna fjölmörgum framúrskarandi umsóknum vegna fjárskorts á undanförnum árum.

Tryggt verður fjármagn til að hrinda í framkvæmd fyrsta áfanga aðgerðaáætlunar um eflingu græna hagkerfisins. Græna hagkerfið er eins konar brúarsmíði milli póla sem hafa verið andstæðir um árabil, annars vegar kröfunnar um hagvöxt og atvinnusköpun og hins vegar um vernd náttúru og umhverfis. Græna hagkerfið snýst um að skapa vinnu og verðmæti með umhverfisvænum vinnubrögðum og tækni, í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Allir flokkar hér á Alþingi sameinuðust í tillögugerð um eflingu græna hagkerfisins, tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum hér í þinginu og nú hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja rúmum 4 milljörðum kr. á næstu þremur árum til að auka grænar fjárfestingar, innlendar sem erlendar, beita hagrænum hvötum til að ýta undir útbreiðslu grænna tæknilausna í íslenskum fyrirtækjum, styðja við umhverfistengdar rannsóknir, nýsköpun o.s.frv.

Ferill þessa máls sýnir að það eru ekki bara orðin tóm að hægt sé að ná samstöðu hér á Alþingi um mikilvæg framfaramál ef öllum flokkum er gefinn kostur á að taka virkan þátt í mótun þeirra og útfærslu. Það sýnir líka að Alþingi getur tekið frumkvæði í stefnumótun fyrir land og þjóð en þarf ekki að vera háð leiðsögn framkvæmdarvaldsins eins og því miður hefur verið reyndin um áratugaskeið. Það eru líka skýr batamerki í störfum þingsins að það sem af er þessu kjörtímabili hafa verið samþykktar nærri þrefalt fleiri þingsályktunartillögur frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar en á síðasta heila kjörtímabilinu fyrir hrun.

Góðir landsmenn. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sýnir svart á hvítu hvaða máli það skiptir að treysta í sessi þjóðareign á auðlindum okkar, því að áætlunin verður meðal annars fjármögnuð með tekjum af sérstöku veiðigjaldi sem útgerðir greiða fyrir réttinn til að nýta þjóðareignina.

Atkvæðagreiðslan í liðinni viku um stjórnarskrármálið var hins vegar því miður skýr vísbending um þau átök einkahagsmuna og almannahagsmuna sem kljúfa raðirnar hér í þinginu og víðar. Hvorki fleiri né færri en 15 þingmenn, þar af allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, greiddu atkvæði gegn því að þjóðin yrði spurð álits á því hvort festa ætti í nýja stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum.

Sjálfstæðisflokkurinn stýrði sjávarútvegsráðuneytinu samfleytt í tæp 18 ár og hélt þannig á málum að ákvæði fiskveiðistjórnarlaga um þjóðareign nytjastofna var í reynd sniðgengið — svo smánarlegt var gjaldið sem útgerðin þurfti að greiða fyrir nýtingarréttinn. Á árunum fyrir hrun greiddi útgerðin að jafnaði ríflega 1% af hagnaði sínum í veiðigjald. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjald hefur það að markmiði að útrýma þessari sniðgöngu í eitt skipti fyrir öll með því að þjóðin fái eðlilega og sanngjarna hlutdeild í arðinum af auðlindanýtingunni.

Frumvarpið um stjórn fiskveiða er málamiðlun milli sjónarmiða um jafnræði og atvinnufrelsi annars vegar og hagkvæmni og arðsemi hins vegar. Nú liggur fyrir að þjóðin verður spurð álits á því í haust hvort hún styðji frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þar sem meðal annars er kveðið á um jafnræði við úthlutun nýtingarleyfa. Ljóst er að ekki verður við það unað að grundvallarmisræmi verði milli auðlindaákvæðis í nýrri stjórnarskrá og útfærslu þess í lögum um stjórn fiskveiða.

Kæru landsmenn. Um helgina hófust hér í Reykjavík Mandela-dagar til heiðurs hinum merka stjórnmálaleiðtoga Nelson Mandela. Mandela mátti þola ofsóknir og áratuga fangelsisvist fyrir stjórnmálaskoðanir sínar en hafði örlög kvalara sinna í hendi sér eftir að hann var kjörinn forseti Suður-Afríku. Mandela kaus að leita sátta, virða sjónarmið pólitískra andstæðinga, freista þess að skapa það pólitíska andrúm sem leyfði jafnt meiri hluta sem minni hluta að komast með reisn frá borði. Það er hugarfar sem við mættum gjarnan tileinka okkur í auknum mæli hér á Alþingi Íslendinga.

Við munum aldrei verða sammála um öll mál. Við eigum ekki að vera sammála í öllum málum því að við erum kosin á grundvelli mismunandi stefnu og hugmyndafræði. En það er skylda okkar að bera virðingu fyrir sjónarmiðum hvert annars og ná niðurstöðu í grundvallarmálum sem best þjónar þjóðarhag og velferð fólksins í landinu.