140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Framsóknarflokkurinn hefur lagt mesta áherslu á þrjá málaflokka á þessu kjörtímabili. Ef finna ætti eitt orð sem næði yfir þá alla væri það orðið „öryggi“. Við framsóknarmenn viljum að landsmenn búi við sem mest öryggi í víðasta skilningi þess orðs. Málaflokkarnir þrír eru í fyrsta lagi að létta á skuldavanda heimilanna, í öðru lagi að skapa fleiri atvinnutækifæri og í þriðja lagi að tryggja öryggi borgaranna gagnvart glæpum sem mest.

Hvað varðar fyrstu tvo málaflokkana, skuldavanda heimila og ný atvinnutækifæri, hafa framsóknarmenn lagt fram heildstæðar tillögur á Alþingi sem við höfum kallað plan B til úrlausnar. Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem hefur unnið hvað skynsamlegustu tillögurnar í þessum efnum að mínu mati. Mikilvægasta tillagan er sú sem tekur á verðtryggingunni. Framsóknarmenn hafa brugðist við ákalli almennings um að draga varanlega úr notkun verðtryggingar. Fyrir þinginu liggur frumvarp okkar um að setja 4% þak á hækkun verðbóta á ársgrundvelli. Þannig deilum við ábyrgðinni af baráttunni við verðbólguna í stað þess að leggja klafa verðbólgunnar fyrst og fremst á skuldug heimili þessa lands.

Varðandi atvinnumálin viljum við efla þær grunnstoðir sem fyrir eru og afla okkur mestra gjaldeyristekna. Hverjar eru þær? Jú, þar verma þrjú efstu sætin iðnaðarfyrirtækin, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan. Við viljum líka beita skattaívilnunum í meira mæli til nýsköpunar í atvinnulífi. Að okkar mati hefur ríkisstjórnin ekki hlúð nægjanlega að þessum grunnstoðum. Hún hefur þvert á móti skapað óþægilega mikla ólgu, sérstaklega hvað varðar rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og rammaáætlunina svokölluðu.

Ég vil vera réttlát og sanngjörn og ég veit að ríkisstjórnin er afar lúin enda tók hún við erfiðu búi. En ég verð að segja að í þessum efnum er framganga ríkisstjórnarinnar verulegt áhyggjuefni, hún er áhyggjuefni um land allt. Fólksflutningar hafa átt sér stað frá dreifbýli til þéttbýlis í flestöllum löndum. Sá flutningur má hins vegar ekki ganga of langt. Hér á Íslandi er sérlega mikilvægt að bera uppi lífvænlega byggð í öllum landsfjórðungum til að nýta náttúruauðlindirnar, hvort sem við gerum það með beinni nýtingu, eins og í orkuvinnslu, sjávarútvegi og landbúnaði, eða óbeinni, svo sem í ferðaþjónustunni. Ég vara ríkisstjórnina við að ganga of langt fram í þessum efnum.

Að lokum vil ég nefna þriðja áhersluatriði framsóknarmanna, öryggi borgaranna. Við viljum friðsamt samfélag sem byggist á umhyggju og vinsemd í garð borgaranna. Við viljum vinna gegn glæpum, svo sem líkamsmeiðingum, ránum, skemmdarverkum, fíkniefnasölu, kúgun gagnvart konum og börnum og ofbeldi af öllu tagi. Við skorum á almenning að halda vöku sinni og aðstoða stjórnvöld í baráttunni gegn glæpum.

Framsóknarmenn hafa lagt fram nokkur mál sem lúta að þessu á Alþingi, svo sem að unnin verði löggæsluáætlun, að rannsóknarheimildir verði auknar og að samtök sem eru skilgreind hættuleg glæpasamtök á alþjóðavísu verði bönnuð. Við teljum að linkind eigi ekki að vera leiðarljósið þegar sporna skal við glæpum heldur eigi að fyrirbyggja þá með öflugri löggæslu í samvinnu við borgarana. Þannig getum við tryggt öryggi borganna, öryggi fyrir alla. — Góðar stundir.