140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þremur og hálfu ári síðan hrunið varð en hins vegar er ljóst að mikið starf hefur verið unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar og mikill árangur hefur náðst svo eftir því hefur verið tekið út fyrir landsteinana, bæði þegar kemur að því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum en líka þegar kemur að almennum efnahagsmálum og því að standa vörð um velferðarsamfélagið. Þar höfum við reynt að læra af nágrannalöndum okkar sem áður hafa gengið í gegnum kreppu, til að mynda af reynslu Norðurlandanna en reynslan sýnir að afleiðingar kreppu bitna oft ekki síst á ungu fólki, bæði hvað varðar atvinnuleysi og líka hvað varðar menntun, þ.e. að það bitnar ekki síst á þeim sem minnsta menntun hafa. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að beina fólki til mennta.

Það hafa aldrei verið fleiri í námi en nú árið 2011 þegar við lítum á framhalds- og háskólastigið. Það er ekki síst því að þakka að ráðist hefur verið í víðfeðmt átak Nám er vinnandi vegur, þriggja ára átak sem er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar, bæði í því að koma þeim til mennta sem vilja og hafa áhuga á að leita sér menntunar en líka að minnka hlutfall þeirra sem ekki hafa lokið formlegu námi að loknum grunnskóla, að það fari úr 30% í 10%, og nýta til þess þau tækifæri sem nú gefast.

Átakið hefur gengið samkvæmt áætlun og hefur framhaldsskólanemendum fjölgað um 1.500 milli ára auk þess sem yfir þúsund atvinnuleitendur hófu nám í skólum landsins í haust. En það skiptir líka máli að fólk finni sér nám við hæfi og þar hefur verið unnið gríðarlegt starf með ýmsum styttri námsbrautum, þróunarstarfi, nýjum þróunarsjóði sem ætlað er að styrkja starfstengt nám sem tryggðar hafa verið 600 millj. kr. á fjárlögum 2012 og 2013 en líka með nýjum Vinnustaðanámssjóði sem ég vonast svo sannarlega til að lög verði til um hér á Alþingi í vor. Það skiptir máli að við komum til móts við þarfir hvers og eins eins og mögulega er unnt því að fólk er misjafnt og við því eigum við að búast.

Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki menntunar, hefur orðað það þannig að við getum ekki ætlast til þess að hver nemandi komi til með að brjóta björg í mannkynssögunni. Fullkomnun felst ekki nauðsynlega í að gera frábæra hluti heldur í að gera hversdagslega hluti frábærlega vel og við ættum að reyna að nesta hvern nemanda okkar með þeirri fullvissu að hann sé einstakur í sinni röð og honum beri að rækta séreðli sitt. Þetta á að vera markmið okkar með menntakerfi okkar.

Ný menntastefna hefur verið gefin út, nýjar aðalnámskrár sem byggja á stoðum í þeim lögum sem sett voru 2008 og ætlað er að skapa borgara sem eru öflugir lýðræðislegir þátttakendur í samfélaginu, læsir á upplýsingar og skapandi einstaklingar. Þetta er sá grunnur sem ég held að sé nauðsynlegur fyrir atvinnulíf framtíðarinnar og sem við sjáum lagðan grunn að í nýrri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Hún byggist á rannsóknum, meðal annars á rannsóknum á hagrænum áhrifum skapandi greina, en sýnt var með nýrri rannsókn að þær veltu 189 milljörðum árið 2009 sem er á pari við áliðnaðinn. Unnið er að því að efla stöðu þessara greina með því að viðurkenna þær sem alvöruatvinnuveg.

Það er kannski lærdómurinn sem við getum dregið af hruninu að það þarf að byggja atvinnulíf okkar á fjölbreyttum stoðum til þess að það sé sterkara til að takast á við ytri áföll og síður viðkvæmt fyrir sveiflum. Út á þetta gengur fjárfestingaráætlunin, sem hér hefur verið rædd, hún byggist á því að efla hið græna hagkerfi, hún byggist á því að efla skapandi greinar og hún byggist á því að efla rannsóknir og tækniþróun hvers konar því að mannvitið eða hugvitið er sú auðlind sem aldrei þrýtur. Við getum rætt mikið um auðlindir í þessum sal og hvernig eigi að virkja þær, en þetta er sú auðlind sem aldrei þrýtur. Hún byggist á öflugu menntakerfi. Með því að virkja þessa auðlind getum við virkjað hér atvinnuuppbyggingu til framtíðar sem mun standa af sér ytri áföll.

Með þá hugmyndafræði að leiðarljósi hefur þessi fjárfestingaráætlun nú verið kynnt og ég hef fulla trú á því að hún eigi eftir að ganga eftir. Ég hef líka fulla trú á því að þegar við lítum á þann árangur sem náðst hefur, hvort sem litið er til menntunar, atvinnu — en fram hefur komið hér fyrir í kvöld að atvinnuleysi hefur farið minnkandi — eigi Íslendingar eftir að koma sterkari út úr þessari kreppu en við fórum inn í hana. Ég er bjartsýn og ég hef mikla trú á Íslendingum og ég held að Íslendingar eigi eftir að standa undir þeirri bjartsýni. — Góðar stundir.