140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:54]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Ræðuna sem ég hyggst nú flytja hef ég flutt margsinnis áður í ýmsum útgáfum, allt frá því í september 2010 þegar allir 63 þingmenn Alþingis samþykktu samhljóða skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og meðfylgjandi þingsályktunartillögu. Ef að líkum lætur verða þessar ræður mínar og annarra fleiri á komandi þingi.

Af meginniðurstöðu þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi er það að segja að þar er talað um að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Þingmannanefndin sagði enn fremur: Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis. Hvernig hefur til tekist? Árangurinn er langt undir væntingum.

Þingmannanefndin telur einnig að taka þurfi til endurskoðunar það verklag sem tíðkast hefur við framlagningu stjórnarfrumvarpa með það að markmiði að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í því samhengi leggur nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja stjórnarfrumvörp fram með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu. Upplifum við það hér? Hefur þessi brýna bragarbót verið gerð? Ég segi nei.

Starfslok þingsins eru á fimmtudaginn 31. maí og enn eru óafgreiddir tugir mála, sum hver mikil að vöxtum og erfið og mörg þeirra nýlega komin fram og jafnvel óafgreidd úr nefndum. Nú virðist framkvæmdarvaldið ætla að koma á sumarþingi án samkomulags við þingið og forseta þess.

Það var og er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu og yfir oddvitaræði. Þar er sagt að verklag oddvitaræðis sé óásættanlegt. Ég spyr hv. þingmenn: Skyldu oddvitar stjórnarflokkanna hafa breytt verklagi sínu? Svari hver fyrir sig.

Á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar ályktaði Alþingi samhljóða með atkvæðum allra þingmanna að brýnt væri að starfshættir þingsins yrðu teknir til endurskoðunar og að þingið verði og styrkti sjálfstæði sitt, að það tæki gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og legði áherslu á að af henni yrði dreginn lærdómur. Alþingi ályktaði að skýrslan væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

Þessar ályktanir og fleiri eru alvarlegar en eru því miður enn að mestu í fullu gildi tæpum þremur árum eftir samþykkt þeirra. Við verðum að hrinda þessum brýnu úrbótum í framkvæmd. Þannig og aðeins þannig stöndum við vörð um og eflum virðingu Alþingis og sjálfstæði og lýðræðið í landinu.

Við ESB-andstæðinga vil ég segja: Haldið vöku ykkar sem aldrei fyrr þegar ESB herðir áróðurstökin og dælir fé inn í landið til þess. Aldrei, aldrei ESB-aðild.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs og sólríks sumars og farsældar í leik og starfi. — Góðar stundir.