140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna.

[10:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku var á ferð hér á landi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Füle. Hann átti viðræður við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og ræddi líka nokkuð við fjölmiðla. Í fréttum sem hafðar eru eftir Stefan Füle er þess getið að hann telji að öll spilin í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins munu verða á borðinu fyrir þingkosningar á næsta ári. Það sé vel raunhæft að ljúka viðræðum á því ári sem sé til stefnu.

Ég vildi spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann deili þessu mati Stefans Füles, sem mér heyrist vera í nokkru ósamræmi við stöðumat margra hér innan lands á síðustu mánuðum, m.a. hæstv. utanríkisráðherra. Ég vildi af þessu tilefni spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort eitthvað nýtt sé komið fram, eitthvað nýtt hafi gerst sem geri að verkum að líkurnar á því að öll spilin, eins og það er orðað, í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, jafnvel í erfiðustu köflunum, verði komin á borðið fyrir þingkosningar næsta vor.