140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

endurgreiðsla IPA-styrkja.

[10:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að við Íslendingar þurfum ekki að endurgreiða IPA-styrkina hafni þjóðin samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið 1994 höfnuðu Norðmenn ESB-samningunum eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu og sama ár dró Sviss sig til baka út úr ESB-umsóknarferli. Ekki hefur reynt á það síðan að aðildarríki hafi hafnað samning í þjóðaratkvæðagreiðslu og samningsferlinu var í raun breytt eftir að Norðmenn höfnuðu aðild að ESB á sínum tíma. Því var breytt úr samningsferli í aðlögunarferli eins og birtist okkur nú á Íslandi. Til vitnis um það er á dagskrá þingsins á eftir hinir svokölluðu IPA-styrkir. Með þeim ætlar Evrópusambandið að koma með inn í landið 5.000 millj. íslenskra kr., vegna þess eins að Íslendingar eru í viðræðum við Evrópusambandið.

Mig langar því til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Þegar Malta dró umsókn sína til baka árið 1996, og frysti hana til ársins 2000, voru gerðar einhverjar kröfur á Maltverja um að endurgreiða þá styrki sem þeir höfðu þegar tekið við, vegna þess að það var búið að breyta kerfinu? Á hvaða lagagrunni byggir hæstv. utanríkisráðherra það að ekki þurfi að endurgreiða IPA-styrkina? Við sjáum að Evrópusambandið beitir okkur nú mjög hörðum refsiaðgerðum, bæði í Icesave-dómsmálinu og makríldeilunni. Í hvaða lagastoð sækir hæstv. utanríkisráðherra þetta álit sitt og á hvaða fordæmi byggir hann það að ekki komi til endurgreiðslu styrkjanna þegar Ísland dregur umsókn sína til baka?