140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

endurgreiðsla IPA-styrkja.

[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni, sem kemur mér á óvart miðað við hvað hún hefur fylgst vel með aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins, að í gangi sé einhvers konar aðlögun. Það er einmitt þannig að farið var nákvæmlega að því sem hv. þingmaður vildi og fleiri í stjórnarandstöðunni gagnvart Evrópusambandinu að því marki að óskað var eftir því — og það var kannski fyrsti sigurinn sem við unnum í þessum viðræðum — að það yrði engin aðlögun. Þess í stað mundu menn setja fram, það sem ég átti meðal annars orðastað við hv. þm. Birgi Ármannsson áðan, tímasettar aðgerðaáætlanir sem sýndu fram á hvernig Íslendingar mundu breyta kerfi sínu eftir að þjóðin gyldi jáyrði. Það liggur algerlega ljóst fyrir.

Að því er varðar IPA-styrkina er hægt að sækja um margvíslega styrkflokka. Íslendingar ákváðu að sækja bara um styrki úr einum flokki, þ.e. þeim flokki sem segja má að fari til þess að kosta og undirbúa ákveðnar breytingar eftir að aðild er orðin að veruleika. Þetta er óafturkræfur kostnaður. Það hefur mörgum sinnum komið fram af hálfu þeirra sem við er að semja. Hv. þingmaður getur skoðað sjálf þær reglugerðir sem á er að byggja, ég get ekki talið þær upp. Ég er hins vegar að vísa í yfirlýsingar sem hafa komið fram af hálfu þeirra sem við erum að semja við hjá Evrópusambandinu og þetta liggur algerlega skýrt fyrir.