140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

endurgreiðsla IPA-styrkja.

[10:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eitt að grípa ofan í samninginn sem er til umræðu í dag, sem fjallar um að fjárhagsleg aðstoð samkvæmt IPA-reglunum skuli vera í fullu samræmi við meginreglur um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun við ESB, segir okkur að við erum í aðlögunarferli. Nú óska ég eftir því að hæstv. utanríkisráðherra segi ekki bara hálfsannleika úr þessum ræðustól.

Það sem ég spurði um var á hvaða lagagrein ráðherra byggði þá skoðun sína að ekki sé um endurkræfar greiðslur að ræða. Það er ekkert í lögum ESB sem segir til um að ríki þurfi ekki að endurgreiða IPA-styrkina en það er heldur ekkert í lögunum sem segir að ríkið eigi að greiða. Þetta er réttarfarsspurning sem verður að svara hér og nú, áður en haldið er af stað með IPA-frumvarpið, því um leið og það verður samþykkt á þinginu er Ísland samkvæmt íslenskum lögum (Forseti hringir.) að gerast aðlögunarþegi að þessu. Þetta verður því að liggja fyrir áður en umræðan fer fram í dag.