140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

fréttir um brot hjá rannsakendum.

[10:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það berast núna á hverjum degi fréttir um sérstaka stjórnsýslu þegar kemur að rannsóknum. Ég ætla að nefna nokkur dæmi.

Í fyrsta lagi hefur verið í fréttum og kom meðal annars fram í fréttum í dag að rannsakendur hjá sérstökum saksóknara hafi verið í einkarekstri meðfram vinnu hjá þeirri stofnun og fengið yfir 23 millj. fyrir að vinna skýrslu. Það hefur komið fram að þeir hafi unnið það verk samhliða vinnu hjá sérstökum saksóknara og unnið rúmlega 14 tíma að meðaltali á hverjum virkum degi og tæplega 10 tíma hvern helgidag.

Í öðru lagi hefur það komið fram að seðlabankastjóri hafi farið fram hjá kínamúrum í tengslum við sölumeðferð Sjóvár.

Í þriðja lagi má nefna að í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans sem hefur verið framkvæmt hefur ekki verið ákært í neinu máli en í sumum málum var farið mikinn, eins og til dæmis í Aserta-málinu þar sem haldinn var blaðamannafundur án þess að búið væri að yfirheyra þá sem grunaðir voru og lítið ef nokkuð hefur gerst síðan í janúar 2010. Forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans veitti þeim aðilum sem voru ákærðir ráðgjöf en vék ekki við rannsókn málsins.

Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta eðlileg stjórnsýsla? Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því að þessi vinnubrögð muni skaða þau mál sem eru til rannsóknar? Ég vildi sömuleiðis spyrja hæstv. ráðherra: Stendur ekki til að rannsaka þessi mál, t.d. framkvæmd gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, sérstaklega í ljósi þess að Seðlabankinn er að fara fram á ótakmarkaðar heimildir? Og í þriðja lagi: Af hverju hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki svarað þinginu beiðni um skýrslu frá 17. maí 2011 um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna?