140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

fréttir um brot hjá rannsakendum.

[10:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þarna voru nokkur mál saman á ferð sem sum heyra vissulega undir efnahags- og viðskiptaráðherra en önnur undir innanríkisráðherra, þ.e. mál sem varða sérstakan saksóknara.

Því er til að svara varðandi framgöngu Seðlabankans að hann starfar auðvitað á grundvelli þeirra laga sem gilda og sett hafa verið á Alþingi um gjaldeyrismál, þar með talið framkvæmd gjaldeyrishaftanna, og annast um gjaldeyriseftirlitið og rekur þau mál sem tengjast meintum brotum á því. Þar eiga menn sína málsvörn fyrir dómstólum ef svo ber undir og ég held að við færum ekki inn í þingsali í sjálfu sér umræður um einstök slík mál. Ef einhverjir telja að á sér hafi verið brotið eða farið hafi verið offari gegn þeim þá leita þeir væntanlega réttar síns og það er dómstólanna að útkljá þau mál.

Mér finnst hins vegar ekki mega missa út úr þessari umræðu mikilvægi þess að eftirliti sé haldið uppi og mönnum sé hegnt ef þeir brjóta gegn lögum, hvað sem okkur finnst um gjaldeyrishöft sem slík, og á meðan þau eru við lýði verðum við að tryggja að reynt sé að fara eftir þeim. Mér finnst á köflum að menn séu farnir að tala af nokkurri léttúð um það, eins og að óvinurinn sé sá sem fyrir hönd okkar annast um framkvæmd með gjaldeyrishöftunum en þau voru ákveðin á Alþingi og af stjórnvöldum. Eins og kunnugt er voru þau sett á í árslok 2008 af þáverandi ríkisstjórn.

Varðandi svör til þingsins um launamál skilanefnda og bankastjóra þá hefur ráðuneytið í tvígang gert allt sem í þess valdi stendur til að afla þeirra upplýsinga en rekið sig þar á þá veggi að þeir sem gögnin hafa undir höndum telja þetta ekki vera opinberar upplýsingar sem hægt sé að sækja á þeim grunni og það gildir og er sameiginleg afstaða bæði ríkisskattstjóra, skilanefnda bankanna og stjórna núverandi banka. (Forseti hringir.) Þessu verður gerð grein fyrir og ég vissi ekki betur en það svar væri reyndar þegar komið til Alþingis.