140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

eignarhald á 365 fjölmiðlasamsteypunni.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er nokkurn veginn í takt við það sem ég mundi líka vilja sjá. Mér finnst að þeir sem þykjast eiga fjölmiðla — það kemur náttúrlega fram hvaða hlutafélög eiga í hlutafélaginu — annaðhvort upplýsi út í hörgul um eignarhaldið niður í einstaklinga eða þeir hafi ekki atkvæðisrétt. Þeir hafi hreinlega ekki atkvæðisrétt eða jafnvel ekki arðsrétt í viðkomandi fjölmiðlafyrirtæki til að útiloka að einhverjir duldir aðilar geti átt þetta í skjóli einhverra fyrirtækja á Seychelleseyjum, í Lúxemborg, á Cayman-eyjum eða hvað þetta heitir allt, Tortóla er frægt, þar sem menn eru í rauninni að mínu mati að stofna fyrirtæki til að fela eignarhaldið fyrir skattyfirvöldum, fyrir fjölmiðlanefnd og öðrum sem eiga að fylgjast með eignarhaldi á fyrirtækjum. Ég legg til að hv. nefnd sem hefur þetta mál til meðhöndlunar grípi til skarpari ráðstafana.