140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höldum nú áfram umræðu um hina svokölluðu IPA-styrki. Þetta hefur verið hálfruglingslegt með þessi mál, þ.e. við byrjuðum á vitlausu máli. Við byrjuðum á frumvarpinu, þeirri umræðu var frestað og byrjað á þingsályktunartillögunni sem átti kannski að byrja á í upphafi og síðan var þeirri umræðu frestað og nú erum við komin af stað aftur að ræða IPA-styrkina.

Það er mikilvægt, frú forseti, að því sé haldið nákvæmlega til haga, sem kom fram í orðum hæstv. forseta þegar forseti kynnti þennan dagskrárlið, að um er að ræða stjórnartillögu. Þetta er tillaga ríkisstjórnarflokkanna beggja sem hér um ræðir. Þetta er ekki þannig að Samfylkingin ein hafi lagt fram tillögu um að við IPA-styrkjunum verði tekið, þetta á sér líka stoð í fjárlögum o.s.frv. Það er mikilvægt að halda því til haga að báðir stjórnarflokkarnir bera ábyrgð á þessu ferli.

Hins vegar er hægt að velta því fyrir sér, í ljósi þeirrar umræðu og þeirra orða sem fallið hafa á undanförnum dögum og vikum, hvort einhverjir þeirra sem studdu það á sínum tíma að fara þessa leið, að taka við styrkjunum og ganga inn í þetta kerfi, séu farnir að hafa efasemdir um að það hafi verið rétt. Ég held að auðveldlega megi finna ræður þar sem slíkt kemur fram.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess að uppi hafa verið hugmyndir um að breyta lögum sem lúta að Evrópusambandsumsókninni sjálfri, t.d. lögum er varða vernd ákveðinna dýrategunda, fuglategunda sérstaklega, en það vill svo til að það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans frá 2009, á bls. 21, að það eigi einmitt að passa það að þessar dýrategundir, þar á meðal lundinn, lendi ekki þannig að við megum ekki nýta þær áfram.

Við höfum svolítið rætt hvað þessir IPA-styrkir eru og ekki höfum við öll verið algerlega sammála, þó að ég sakni þess að stjórnarliðar tali og segi sínar skoðanir í þessu máli. Það hefur vantað svolítið upp á það. Við höfum reynt að sýna fram á að það sé a.m.k. vafi á að þau verkefni sem hafa hlotið, við skulum orða það þannig náð fyrir augum þeirra sem ákveða þetta séu til þess fallin að aðlaga eða breyta íslenskri stjórnsýslu, gera stjórnkerfið einfaldara og betra og sjá til þess að búið sé að aðlaga það þegar og ef af inngöngu verður. Um er ræða reyndar mjög góð verkefni, verkefni sem eiga fyllilega rétt á sér að sett séu í framkvæmd en þau eiga að mínu viti ekki heima inni í þessum pakka miðað við þær lýsingar sem fyrir liggja á því hvaða verkefni eða í hvað IPA-styrkirnir eigi að nýtast.

Auðvitað er það svo og maður ber virðingu fyrir þeim skoðunum, frú forseti, að íslenskar stjórnsýslustofnanir sem hafa verið fjársveltar mjög lengi sjá tækifæri til að ná þarna í fjármuni til að gera breytingar sem þarf að gera jafnvel þó að ekki verði af inngöngu í Evrópusambandið. Má þar nefna Hagstofuna og fleiri aðila. Þetta eru verkefni sem íslenska ríkið ber að sjálfsögðu ábyrgð á að séu í lagi. En það eru þau verkefni sem eru ekki til þess að styrkja stjórnsýslu eða einfalda hana sem mér finnst svolítið undarlegt að séu í þessum pakka og hef þar af leiðandi efasemdir um það.

Það kemur mjög skýrt fram í upplýsingum sem Evrópusambandið dreifir til ríkja sem eru í umsóknarferli að það er ákveðið kerfi sem er notað til að hjálpa aðildarríkjum til að vera tilbúin þegar og ef að aðild kemur og það er meðal annars þetta IPA-kerfi. Það kemur fram í upplýsingaefni að það sé ekki eingöngu svo að ríkjunum sé hjálpað til að uppfylla ákveðnar kröfur heldur að það sé líka gert með réttum hætti, þ.e. að kröfurnar séu ekki innleiddar eða lögum og slíku breytt án þess að tryggt sé að það sé gert með réttum hætti. Kemur þetta meðal annars fram á bls. 14 í ritinu Understanding enlargement sem Evrópusambandið hefur gefið út.

IPA-styrkina sjálfa er að sjálfsögðu ekki hægt að ræða nema í samhengi við stóru myndina sem er aðildar- og aðlögunarferlið að Evrópusambandinu, þeir eru kannski ekki stór hluti en þeir skipta máli þegar allt ferlið er skoðað. Hins vegar minnist ég þess ekki — ég tek það fram að það kann að vera misminni hjá mér, ég hef reyndar leitað að því, að það sé mjög lítið ef nokkuð fjallað um þessa styrki í nefndaráliti meiri hlutans sem samþykkt var árið 2009. Ég ítreka að þetta kann að vera misminni hjá mér og ég velti fyrir mér af hverju svo er, hvort það hefur ekki legið fyrir að þetta kerfi var til staðar þegar farið var af stað og hlutverk þess.

Einnig höfum við hlustað hér á fyrrverandi ráðherra og þingmenn. Sér í lagi minnist ég orða fyrrverandi ráðherra sem hafa talað um þessa styrki og lýst því beint hvernig þessir fjármunir eru ætlaðir til að flýta aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er vissulega áhugavert þegar aðilar sem hafa verið í innsta hring að sýsla með þetta upplifa það með þeim hætti að það sé ástæða til að koma því á framfæri í þingsal.

Ég hef líka nefnt að í áðurnefndu riti sem ég vitnaði í áðan kemur fram að það sé fyrst og fremst verið að horfa til þess að stjórnsýslulegar stofnanir séu tilbúnar þegar á hólminn er komið. Ég veit ekki, frú forseti, hvort það þarf einhverja sérstaka leikni til að lesa það út úr þeim texta sem liggur fyrir um hlutverk þessara fjármuna að það er ekki um neitt annað að ræða en aðlögun til að Ísland uppfylli þau skilyrði sem Evrópusambandið setur þegar á hólminn er komið og það er enn og aftur vitnað í þetta fína rit sem Evrópusambandið gaf út í ritstjórn Olli Rehns og hlýtur að skipta býsna miklu máli.

Hér hefur verið vitnað nokkuð í eða að minnsta kosti hefur komið fram að í bókun sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gerði í utanríkismálanefnd hafi komið fram miklar efasemdir um þetta ferli allt og er ljóst að þingmaðurinn ásamt mörgum öðrum þingmönnum telur að ferlið sé komið út fyrir það sem lagt var af stað með í upphafi. Þá veltir maður fyrir sér hvort Alþingi sé komið í þá stöðu að þurfa að taka málið inn til þingsins — ég geri mér grein fyrir að það er ekki hægt að gera það núna en þá á fyrstu dögum þingsins í haust — og hér fari fram alvöruumræða þar sem mönnum verði gefinn mikill og góður tími og málið krufið til mergjar hvort það sé þannig að stjórnvöld séu komin út fyrir það umboð sem Alþingi veitti. Tel ég að það eigi mögulega einnig við um IPA-styrkina, sé ekki eitthvað um það að finna í því nefndaráliti sem ég vitnaði í áðan en ég ítreka að það gæti hafa farið fram hjá mér og mig misminni það.

Frú forseti. Það að hafa efasemdir um IPA-styrkina snýst ekki um að vilja ekki leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um eitthvað á endanum, ef einhverjum dytti það í hug sem er ekki ólíklegt, heldur fyrst og fremst um það að mörg okkar telja að þetta sé óeðlilegur hluti af viðræðuferli sem á að eiga sér stað, samningaviðræður, sem hefur svo komið í ljós að mínu mati að eru eitthvað allt annað en samningaviðræður.