140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Einn lykilþátturinn í Evrópusamvinnunni gengur út á að aðildarríkin leggja fé í púkk og því fé er síðan deilt út til verkefna í álfunni sem miða að því að jafna lífskjör í Evrópu. Eitt stærsta afrek Evrópusambandsins er að jafna lífskjör aðildarlandanna. Markmiðið er að búa til sameiginlegan markað og að einstaklingar í álfunni geti alls staðar notið sömu tækifæra.

Ég hef alltaf skilið IPA-styrkina þannig að þeir eigi að nýtast Íslendingum í aðildarviðræðunum til að koma sér upp þekkingu á þessu kerfi öllu. Þeir eru til dæmis veittir til landshlutasamtaka til að þau geti prófað að vinna á þeim grundvelli að sækja fé í þessa sameiginlegu sjóði Evrópu. Þeir eru hugsaðir sem styrkir til að koma upp þekkingu á Íslandi á öllu þessu kerfi því að þekking á því er mjög mikilvæg ef ríki gerist aðildarríki að Evrópusambandinu.

Þeim sem eru á móti Evrópusambandinu í umræðunni verður tíðrætt um hugtakið aðlögun og langar mig svolítið að spyrja hv. þingmann um skilning hans á því hugtaki. Ég sé mikla aðlögun að Evrópusambandinu í því að hafa verið aðili að EES í háa herrans tíð. Er hann þá á móti aðild að EES vegna aðlögunar sem í þeirri aðild felst að regluverki Evrópusambandsins? Svo mundi ég vilja spyrja hann út í aðlögunarhugtakið sérstaklega í tengslum við þetta umsóknarferli og spurningin er þessi: Ef einhver aðlögun felst í sjálfu umsóknarferlinu, (Forseti hringir.) verður þá ekki hv. þingmaður að nefna, ef þjóðin segir nei við aðild, hvað standi óafturkræft eftir í íslensku samfélagi sem við getum ekki tekið til baka út af viðræðunum sjálfum?